138. löggjafarþing — 30. fundur,  24. nóv. 2009.

vísun Icesave aftur til nefndar.

[20:08]
Horfa

Unnur Brá Konráðsdóttir (S):

Hæstv. forseti. Ég hef talsverðar áhyggjur af því hvað hefur orðið um stjórnarliða í dag vegna þess að þeir eru fáir hér í salnum. Ég tek undir með þeim hv. þingmönnum sem hafa kallað eftir því að ráðherrar sitji og hlýði á þessar umræður vegna þess að ég tel það gríðarlega mikilvægt.

Þá bendi ég einnig á 1. mgr. 53. gr. í þingsköpunum okkar þar sem fram kemur að öllum þingmönnum sé skylt að sækja alla þingfundi nema nauðsyn banni og forföll skuli tilkynna forseta svo fljótt sem unnt er og hann meti nauðsynina. Nú þekki ég til þess að sumir hv. þingmenn sitja úti á skrifstofum og fylgjast með þessum fundi en það væri ágætt að vita, frú forseti, hversu margir hv. þingmenn hafa tilkynnt forföll á grundvelli 1. mgr. 53. gr. svo maður hafi það á hreinu þegar maður gerir þessar athugasemdir hvort stór meiri hluti þingflokks Vinstri grænna sé staddur einhvers staðar erlendis eða á einhverjum öðrum mikilvægari fundi en þessum hér.