138. löggjafarþing — 30. fundur,  24. nóv. 2009.

vísun Icesave aftur til nefndar.

[20:11]
Horfa

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir (S):

Frú forseti. Ég ítreka það sem fram hefur komið, við teljum rétt og í rauninni skylt að forsætisráðherra verði hér í salnum og verði viðstödd umræðuna því að það er alveg ljóst að eftir að þessi 2. umr. hófst, á fimmtudaginn í síðustu viku, hafa margvíslegar upplýsingar komið fram sem þarf að ræða hér. Við fáum ekki tækifæri til þess að kalla til fjárlaganefndina, fara yfir þær athugasemdir og ábendingar sem hafa verið settar mjög skilmerkilega fram af hálfu fræðimanna í bænum hér í samfélaginu og ég tel mikilvægt að nefndin fái tækifæri og svigrúm til að fara yfir þær en svo er ekki. Þess vegna er þýðingarmikið, fyrst tími forsætisráðherra er kominn, að hún komi hingað í pontu og tiltaki sérstaklega hvaða atriðum hún er ósammála og hvaða svör hún hafi við til að mynda ábendingum Sigurðar Líndals um hugsanleg stjórnarskrárbrot ef af samþykkt þessa frumvarps verður.

Það er mikilvægt, m.a. til þess að liðka fyrir umræðunni, (Forseti hringir.) að við fáum að heyra sjónarmið forsætisráðherra í þessari erfiðustu milliríkjadeilu síðari ára.