138. löggjafarþing — 30. fundur,  24. nóv. 2009.

vísun Icesave aftur til nefndar.

[20:13]
Horfa

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir (S):

Frú forseti. Það er alveg hárrétt sem kom fram hjá hv. þm. Sigmundi Davíð Gunnlaugssyni. Ég held að það sé mjög mikilvægt að hæstv. forsætisráðherra verði viðstödd ræðu hv. þm. Péturs H. Blöndals. Af hverju segi ég það? Jú, út af því að hv. þm. Pétur Blöndal spurði forsætisráðherra ekki fyrir löngu ákveðinnar spurningar sem tengist krónutölufestingunni 22. apríl á þessu ári og forsætisráðherra svaraði algjörlega út í hött eins og hún væri bara stödd úti á túni. Annaðhvort vissi hún ekki betur eða hún var illa upplýst um málið. Iðulega hefur hv. þm. Pétur H. Blöndal komið með gagnmerkar ábendingar í allri þessari umræðu á öllum stigum þessa máls og því tel ég mikilvægt að forsætisráðherra hlýði á mál hans og svari síðan þeim spurningum eða ábendingum sem upp kunna að koma í ræðu hans.