138. löggjafarþing — 30. fundur,  24. nóv. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

76. mál
[20:57]
Horfa

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson (F) (andsvar):

Frú forseti. Ég var byrjaður áðan að nefna það sem hv. þm. Pétur H. Blöndal fjallaði um í ræðu sinni varðandi sekt Íslendinga sem þjóðar. Það er alveg stórfurðuleg umræða sem farið hefur af stað hér hjá stjórnarliðum sumum hverjum, að Íslendingar eigi í raun ekkert annað skilið en að bera þessar byrðar vegna þess að þeir hafi hagað sér svo illa.

Eins og hv. þingmaður benti réttilega á voru þetta fyrirtæki sem tóku lán í útlöndum og lánuðu áfram til erlendra fyrirtækja, þau höfðu um þetta milligöngu og gerðu það samkvæmt evrópskum reglum. Reglurnar sem fyrirtækin störfuðu eftir voru ekki einu sinni íslenskar. Þess vegna er dálítið undarlegt að segja að íslenskur almenningur eigi að bera ábyrgð á þessu. Um daginn hélt háskólaprófessor þessu fram, deildarstjóri einhvers staðar, og ég velti fyrir mér hvort sá hinn sami væri sömu skoðunar ef menn spöruðu fyrir þessum greiðslum með því að leggja niður deildina hans og hann missti vinnuna. Ég hugsa að í mörgum tilvikum hugsi menn ekki um þetta út frá sjálfum sér en séu tilbúnir (Forseti hringir.) að láta aðra bera ábyrgð.