138. löggjafarþing — 30. fundur,  24. nóv. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

76. mál
[20:58]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S) (andsvar):

Frú forseti. Ég er sammála hv. þingmanni, þetta er ótrúleg röksemdafærsla. Þetta er eins og við kenndum Rússum um kommúnismann, refsuðum einstökum Rússum fyrir að þeir voru með kommúnisma í 70 ár og gerðu alls konar hluti. Fólkið sjálft getur ekki borið ábyrgð á þessu. Fiskvinnslukona á Raufarhöfn getur ekki borið ábyrgð á því sem útrásarvíkingarnir gerðu. Ef þetta er reyndin, eins og kom fram í ræðu eins þingmanns um daginn, að við berum ábyrgð hvert á öðru vil ég líka fá að sjá reikningana hans og heimilisbókhaldið og fylgjast með því daglega hvað hann er að gera. Ef ég á að bera ábyrgð á hans fjármálum hlýt ég að mega fylgjast með þeim frá degi til dags.

Þetta er fráleit röksemdafærsla. Þeir sem gerðu þessa samninga, þeir sem lánuðu þeim o.s.frv., bera ábyrgð á þessu, ekki ég og aðrir Íslendingar.