138. löggjafarþing — 30. fundur,  24. nóv. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

76. mál
[21:01]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S) (andsvar):

Frú forseti. Fyrstu skrefin mín væru að fara til Bretlands og Hollands og segja þeim frá fyrirvörum Alþingis frá því í sumar, segja þeim hvað þetta væru afskaplega sanngjarnir fyrirvarar og þeir væru hugsaðir þannig að íslenska þjóðin hefði möguleika á því að greiða þetta. Það yrðu fyrstu skrefin hjá mér. Það væru fyrstu skrefin að sannfæra Bretana og Hollendingana um það hvað þetta væru óskaplega sanngjarnir fyrirvarar sem Alþingi gerði, því að þeir voru það, þeir voru virkilega sanngjarnir. Við ætluðum að borga svo fremi sem við gætum. Það var meira að segja stungið upp á þessari hugmynd gagnvart þróunarlöndunum, sú hugmynd að borga ákveðinn hluta af aukningu í landsframleiðslu. Það var stungið upp á þeirri hugmynd gagnvart þróunarlöndunum því að þá fara nefnilega saman hagsmunir þeirra sem lána og þeirra sem skulda, að hagur viðkomandi lands verði góður. Það væru nefnilega hagsmunir Breta og Hollendinga að hagur Íslendinga væri góður ef núgildandi lögum væri framfylgt.