138. löggjafarþing — 30. fundur,  24. nóv. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

76. mál
[21:02]
Horfa

Sigurður Ingi Jóhannsson (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þm. Pétri H. Blöndal fyrir hans fyrstu skref í þessu stóra máli og væri kannski gáfulegra að við mundum fara þau en standa í þessari umræðu sem er svo sérkennileg að við stjórnarandstöðuþingmenn erum í einræðu við okkur sjálf hér í salnum og stjórnarþingmenn, hvað þá ráðherrar, taka ekki þátt í umræðunni sem er vissulega mjög mikilsverð og nauðsynleg.

Mig langar að bæta við þeirri spurningu til hv. þingmanns þar sem enn og aftur er komin sú pressa að ljúka eigi málinu fyrir einhverja ákveðna dagsetningu. Við höfum reyndar lifað af held ég þrjár dagsetningar, þ.e. þjóðin og efnahagur landsins, sem voru lok júlí, lok sumarþings og 23. október, en núna er komið að hinum margfræga 30. nóvember og þá ku allt fara á hvolf. Hið svokallaða alþjóðasamfélag mun jafnvel ráðast á okkur. Mig langar að spyrja hv. þingmann hvort hann deili þessum áhyggjum með ríkisstjórninni, því að það virðist vera svo að hæstv. ríkisstjórn ein hafi þessar áhyggjur en ekki þjóðin og ekki við, stjórnarandstaðan.