138. löggjafarþing — 30. fundur,  24. nóv. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

76. mál
[21:09]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S) (andsvar):

Frú forseti. Þetta er mjög áhugaverð spurning. Ég lagði einmitt til í haust að áður en við samþykktum frumvarpið sem þá var samþykkt gæfum við þriggja vikna hlé, sendum íslenska þingmenn í öll þingin í Evrópusambandinu og kynntum málið, ynnum baklandið af Bretum og Hollendingum, því að þetta er áróðursstríð. Það er alveg hárrétt hjá hv. þingmanni að við eigum að fara til Bretlands, við eigum að ráðast inn í gryfju ljónsins og kynna þeim málið og segja þeim hve þetta sé óskaplega sanngjarnt og hve það sé mikilvægt að íslensk þjóð geti borgað af þessu láni. Þetta eigum við að gera og það er enn þá tími til þess vegna þess að öll tímapressa er horfin af þessu máli. Ég hef ekki séð hana, hún er ekki lengur til.