138. löggjafarþing — 30. fundur,  24. nóv. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

76. mál
[21:36]
Horfa

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir (S) (andsvar):

Frú forseti. Ég vil þakka hv. þm. Þór Saari fyrir góða ræðu og yfirgripsmikla. Ég veit að hann lagði sig fram í sumar nótt sem nýtan dag eins og aðrir fjárlaganefndarmenn við að reyna að koma vitinu fyrir ríkisstjórnina og reyna að vinna betur úr þeim hörmungarsamningi sem blasti við þinginu þá. Ég tel að við höfum náð þokkalegri niðurstöðu við að reyna að verja hagsmuni Íslands til lengri tíma litið. Við stóðum í lappirnar, við stóðum saman og náðum þeim árangri sem raun ber vitni.

Fyrri spurning mín kemur núna en sú síðari á eftir: Hefði hv. þingmaður og þá Hreyfingin tekið þátt í að vinna þetta og fylgja málinu eftir með öðrum hætti? Hefðuð þið tekið þátt í því ef ríkisstjórnin hefði komið til okkar í stjórnarandstöðunni og spurt: Ætlið þið að koma með okkur til Bretlands og Hollands og vinna að því að ná í gegn þessum samningum, þessum nýju lögum sem þið tókuð þátt í? Hefðum við ekki farið öll í sameiningu út til þess að reyna að verja okkar (Forseti hringir.) hagsmuni og halda áfram að standa saman í stað þess að láta þetta (Forseti hringir.) í hendurnar á frekar afdankaðri samninganefnd?