138. löggjafarþing — 30. fundur,  24. nóv. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

76. mál
[21:40]
Horfa

Ásbjörn Óttarsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég ætla að byrja á því að þakka hv. þingmanni fyrir góða ræðu. Mig langar að spyrja hann út í afstöðu hans varðandi það sem gerðist hjá Alþjóðagjaldeyrissjóðnum. Í nóvember sl. var talað um að skuldaþol íslensku þjóðarinnar væri í kringum 240% en nú er komið fram að það sé í lagi að það sé 310%. Maður hefur grun um að verið sé að aðlaga þessa prósentu að ástandinu eins og það er.

Nú hefur margoft komið í ljós í þessu máli að Bretar og Hollendingar hafa notað þennan sjóð til þess að kúga okkur í þessu máli. Mig langar að spyrja hv. þingmann hvort hann hafi áhyggjur af því að ef við samþykkjum þessa samninga, eða meiri hlutinn hér á Alþingi, að þeir horfi til lengri tíma, Bretar og Hollendingar, nýlenduveldin stóru, og það verði þá til þess að þeir geti komið seinna meir þegar á reynir og við getum ekki staðið undir þessu með það að markmiði að ná af okkur auðlindum landsins, eins og hv. þm. Margrét Tryggvadóttir benti á hér á fimmtudaginn að hefði gerst annars staðar. Hefur hv. þingmaður áhyggjur af því að Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn sé hugsanlega að misnota aðstöðu sína til að ná af okkur auðlindunum í framtíðinni?