138. löggjafarþing — 30. fundur,  24. nóv. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

76. mál
[21:42]
Horfa

Ásbjörn Óttarsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka þetta svar hv. þingmanns. Hann kom inn á í sinni ræðu að við greiðum þessa skuld í erlendum gjaldmiðli. Mig langar að spyrja hv. þingmann hvort hann hafi ekki áhyggjur af því að til lengri tíma litið, kannski 15–20 ára, munum við ekki sjá nein merki þess að krónan geti rétt sig af, þ.e. að gengi hennar geti styrkst. Nú þegar erum við með fasta inni í landinu 500–600 milljarða í svokölluðum jöklabréfum sem þurfa að fara út og hugsanlega á þessum tíma þangað til við förum að greiða Icesave-vextina og Icesave-skuldbindinguna.

Eins nefni ég sem dæmi að sveitarfélög greiða á næsta ári 50 milljarða í afborganir og vexti í erlendum gjaldeyri og sveitarfélög hafa engar tekjur í erlendum gjaldeyri. Hefur hv. þingmaður ekki áhyggjur af því að við séum að skuldbinda þjóðina allt of mikið í erlendum gjaldeyri og það muni leiða til þess að gengi krónunnar muni verða mjög lágt hér næstu árin eða áratugina?