138. löggjafarþing — 30. fundur,  24. nóv. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

76. mál
[21:48]
Horfa

Frsm. 1. minni hluta fjárln. (Þór Saari) (Hr) (andsvar):

Frú forseti. Vissulega var reynt að fara yfir það og í samtölum við skilanefndir bankanna kom fram að það verður hugsanlega hægt að greiða eitthvað út af þessum eignum eftir kannski fimm ár, kannski tíu ár. Það fer eftir því hvað dómsmálin verða mörg og hvað þau vara lengi. Þetta er óvissuþáttur sem við stöndum frammi fyrir hvað varðar eignir Landsbankans og það er mjög óþægileg staða að hafa ekki betri hönd á því en þetta.

Hvað varðar það sem hann fjallaði um fyrst, þ.e. varðandi þessa skatta, er kannski rétt að upplýsa að áður en ég kom á þing starfaði ég sem sérfræðingur í skuldastýringu ríkissjóða Afríkuríkja og það er þess vegna sem ég tala kannski miður glaðlega um þetta mál. Ástæðan er einfaldlega sú að íslenska ríkisstjórnin er að máta sig í þau fótspor sem fátæk Afríkuríki stigu fyrst þegar þau urðu fátæk fyrir alvöru. Það voru ekki lengur til peningar fyrir menntun, heilbrigðisþjónustu eða samgöngum, (Forseti hringir.) þeir fóru allir í að greiða vexti af erlendum lánum.