138. löggjafarþing — 30. fundur,  24. nóv. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

76. mál
[21:57]
Horfa

Sigurður Ingi Jóhannsson (F):

Virðulegi forseti. Mér finnst ágætt í upphafi máls míns að draga fram tvær stærðir sem hafa varið tvíteknar í umræðum í kvöld, nú síðast í ágætri ræðu hv. þm. Þórs Saaris, um að hin fjárhagslega skuldbinding af vöxtunum einum saman séu tekjuskattar 80 þúsund Íslendinga. Það hefur einnig verið notuð önnur samlíking sem líka er ágætt að festa sér í minni — stærðargráðan á þessum tölum er með þeim hætti að það er erfitt að henda reiður á þeim í umræðunni. Hin stærðargráðan sem gjarnan hefur verið nefnd er að í vextina eina fari um 100 milljónir á dag hvern einasta daga, jafnvel langt fram í framtíðina. Það er sú tala sem við verðum þá að afla í gjaldeyri eða skera niður og spara gjaldeyri til þess að ná að borga.

Virðulegi forseti. Enn á ný ræðum við hið svokallaða Icesave-mál, umræða sem ætla engan endi að taka, mundu margir segja. Enda kannski ekki nema von þar sem um er að ræða eitt hið stærsta og alvarlegasta mál sem við sem þjóð höfum staðið frammi fyrir. Við umræðurnar á sumarþingi nefndi ég að á fyrsta tímabili hins íslenska lýðveldis, þ.e. á þjóðveldistímanum, stóðu menn oft frammi fyrir stórum og erfiðum málum, jafnvel mun stærri á þeirra tíma mælikvarða en við gerum nú, og leystu þau. Engu að síður töpuðum við sjálfstæði okkar um margar aldir. Það getur auðvitað gerst aftur.

Frú forseti. Eins og margoft hefur komið fram og kannski þrátt fyrir alla pólitík og ágreining um undirbúning, aðdraganda og upphaf málsins, snýst Icesave fyrst og fremst um tvennt, annars vegar réttlæti og hins vegar greiðslubyrði og gjaldþol íslensku þjóðarinnar. Varðandi seinni tvo hlutina, greiðslubyrðina og gjaldþol, hefur verið erfiðara en — ja, það liggur við að maður segi að það sé þyngra en tárum taki að draga þær upplýsingar fram. Allt sumarið fór í það og reyndar erum við enn að horfast í augu við tölur og stærðir og nánast hugmyndir að tölum sem, eins og kom fram í ræðu hv. þm. Þórs Saaris þar sem hann sýndi okkur gröf úr skýrslu Alþjóðagjaldeyrissjóðsins um það sem hér þyrfti að henda í efnahagsmálum þjóðarinnar svo að við gætum allt í einu farið að greiða allan þennan gjaldeyri úr landi, sem er talsvert annað ástand en við höfum upplifað á síðustu árum eða áratugum í íslensku efnahagslífi.

Það er líka rétt að velta því fyrir sér hvaða umræðu er verið að fara í og við hverja. Það hefur margoft komið fram í umræðunni í dag og í kvöld að hér stendur hver stjórnarandstöðuþingmaðurinn upp á fætur öðrum, fer í pontu og heldur ræður, spyr spurninga og veltir fyrir sér hvernig við eigum að standa undir þessu og dregur oft á tíðum upp nokkuð ófagra mynd af ástandinu og þeim líkindum sem hér gætu orðið. Hins vegar er voða lítið um að meiri hlutinn sem ber málið fram, stjórnarþingmenn eða hæstv. ráðherrar komi í pontu og svari slíkum spurningum eða taki þátt í umræðunni. Það er eins og við séum í eins konar einræðu hér út í tómið.

Frú forseti. Það er vert að staldra við og velta fyrir sér hvað hefur áunnist í þessu máli frá þeim tíma sem drög að pólitísku samkomulagi um Icesave-deiluna voru fyrst lögð fram, þ.e. haust og snemmvetrar 2008, fyrir rúmlega ári síðan í tíð ríkisstjórnar Samfylkingar og Sjálfstæðisflokks, ríkisstjórnar sem ríkti í aðdraganda hrunsins og í hruninu sjálfu. Í því sambandi er enn rétt — þar sem það gleymist ansi oft — að minna á að Icesave-reikningarnir í Hollandi voru stofnaðir í apríl eða maí 2008, fjórum eða fimm mánuðum fyrir hrun. En við hrunið í október voru innlánsreikningar í Hollandi orðnir u.þ.b. 200 þúsund talsins, innlánsreikningar með viðurkenningu íslenskra og hollenskra fjármálayfirvalda, ég endurtek, með viðurkenningu hollenskra fjármálayfirvalda líka. Aukningin í Bretlandi var fjórföldun innlána á Icesave-reikninga á sama tíma, þ.e. frá vori 2008 til hrunsins með sömu viðurkenningu, viðurkenningu íslenskra og breskra fjármálayfirvalda.

Eins og margoft hefur komið fram voru gerð fjölmörg mistök á þessum tíma, mistök sem eru okkur gríðarlega dýrkeypt í dag. Ég held að flestir geti tekið eitthvað af þeirri gagnrýni til sín. Ef við horfum hins vegar í kringum okkur á umhverfið, á þær aðstæður sem þá voru, þ.e. hrun bankakerfis heimsins, á upphaf kreppunnar, þann ótta sem greip um sig í öllum vestrænum ríkjum og jafnvel víðar um að hið vestræna kapítalíska hagkerfi væri að hrynja, er ekkert óeðlilegt að setja sig í þau spor sem íslenskir ráðamenn stóðu í þá, að verða fyrir á einni viku að vera klappað á bakið sem góðum vini frá Íslandi yfir í þá gríðarlegu andúð sem menn upplifðu á fundum með ráðamönnum annarra ríkja. Það var ótti ráðamanna í þessum ríkjum vinaþjóða okkar og annarra ríkja sem við eigum samskipti við, ótti um að þeirra eigið bankakerfi mundi jafnframt hrynja og þeirra hagkerfi mundi líka hrynja. Í þessum anda verðum við að setja okkur í spor breskra ráðamanna þegar þeir setja hryðjuverkalög á vinaþjóð, á þjóð sem er samherji þeirra í NATO og hefur átt viðskipti og samskipti við þjóð þeirra í árhundruð.

Ef við berum þá stöðu sem þarna var uppi sl. haust síðan saman við stöðuna sem er nú uppi er það hreint ekki sama umhverfi, það eru hreint ekki sömu aðstæður. Nú er komin miklu meiri ró, víða hafa hagkerfi heimsins tekið við sér, víða hafa menn sagt að kreppubotninum sé náð og að menn séu að snúast á rétt ról. Nú eru allt aðrar aðstæður. Nú eru aðstæður uppi sem gera það að verkum að þegar við förum út í hinn stóra heim að ræða við þingmenn og ráðamenn er allt, allt, allt önnur staða en var í október og nóvember árið 2008.

Það er rétt að rifja það upp hér sem hefur komið fram í umræðu á síðustu dögum, til að mynda í stuttri en ágætri grein fyrrverandi formanns og ráðherra Framsóknarflokksins, Guðna Ágústssonar, sem fjallaði um stórmerkilega játningu um Icesave. Í greininni var fjallað um yfirlýsingar Ingibjargar Sólrúnar Gísladóttur fyrrverandi utanríkisráðherra og formanns Samfylkingarinnar á þessum tíma og þar segir, með leyfi forseta:

„Nú hefur Ingibjörg Sólrún Gísladóttir sent ríkisstjórn Jóhönnu Sigurðardóttir harðorða yfirlýsingu vegna Icesave-málsins sem hlýtur að opna augu stjórnarliða úr báðum flokkum. Ingibjörg Sólrún lætur þau ummæli falla í viðtali í Fréttablaðinu á dögunum að Bretar hafi algjörlega einhliða tekið ákvörðun um að tryggja innstæður í breskum bönkum að fullu án nokkurs samráðs. Þess vegna verði þeir að bera sína ábyrgð. Það gangi ekki að öll ábyrgðin lendi á Íslendingum. Enn fremur segir hún að sér finnist að íslenska samninganefndin hafi ekki lagt nógu mikla áherslu á ábyrgð Breta og ábyrgð Evrópusambandsins. Við Íslendingar séum að vinna samkvæmt „directívi,“ frá Evrópusambandinu sem sé meingallað og sérstaklega þegar komi að alþjóðlegum bönkum.

Þessi orð fyrrverandi utanríkisráðherra hljóta að kalla á það að bæði ráðherrar og þingmenn setjist niður og viðurkenni að rétt sé að skoða málið í nýju ljósi.“

Eins fjallaði Ingibjörg Sólrún um það í viðtali að samningamenn þjóðarinnar, ráðamenn, hefðu komið fram eins og þeir væru sakamenn og farið hefði verið með þeim hætti inn í samningaviðræður við Breta og Hollendinga.

Sakamenn, sú umræða hefur komið hér upp í dag, hverjir eru það? Ekki er það þjóðin. Við getum ekki tekið á okkur þau brot sem sannarlega — eða að því er virðist sannarlega, það á auðvitað eftir að koma í ljós í dómsmálum — sem virðast hafa verið framin í bönkunum daginn út og daginn inn. Það er ekki þjóðin sem stóð fyrir þeim gjörningum og það er ekki hægt að láta þjóðina taka á sig sakir annarra, einkaaðila sem fóru fram í ljósi og undir reglum Evrópska efnahagssvæðisins og gerðu það sem þeir töldu að þeir mættu og var leyft af fjármálayfirvöldum, bæði íslenskum en ekki síður hollenskum og breskum, eins og áður kom fram.

Í þessu samhengi er kannski rétt að rifja jafnframt upp grein sem Sigurður Líndal birti í Fréttablaðinu 13. október sl. þar sem fjallað var um bréf hæstv. forsætisráðherra Jóhönnu Sigurðardóttur til forsætisráðherra Noregs, Jens Stoltenbergs. En í greininni fór Sigurður fram á að Stoltenberg svaraði af hverju Ísland og íslenska þjóðin bæri ábyrgð á Icesave.

Mig langar að fá að vitna til þessarar greinar þar sem Sigurður óskar þess að norski forsætisráðherrann svari eftirfarandi spurningum skýrt en slíkt væri vinarbragð. Í greininni segir, með leyfi forseta:

„1. Hvenær tók íslenska ríkið að sér að ábyrgjast skuldir Landsbanka Íslands sem var í einkaeign og ríkinu — og þar með íslensku þjóðinni — óviðkomandi og hvar er staður fyrir slíkri ábyrgð í lögum, samningum eða löglega bindandi yfirlýsingum? Slíkar íþyngjandi skuldbindingar verða að styðjast við skýra réttarheimild.

2. Að svo miklu leyti sem álitaefni kunna að vera um skyldur íslenska ríkisins vegna einhvers konar ávirðingar í samskiptum við Breta og Hollendinga, hvers vegna hefur Íslendingum verið synjað um að fá slík álitaefni lögð fyrir dóm?“

Sigurður Líndal telur að íslensk stjórnvöld verði að ganga eftir skýrum svörum við þessum spurningum.

Kannski ættum við sjálf að spyrja okkur slíkra spurninga. Ef við næðum að komast til botns í þeim stæðum við kannski aðeins betur í því hvernig við eigum að standa að þessu skelfilega máli. Einn þáttur í því, frú forseti, er sá skortur á kynningu á afstöðu Íslands og stöðu Íslands sem virðist hafa verið tekinn upp strax haustið 2008 þegar íslenskir ráðamenn urðu fyrir því að ganga á þann vegg sem þeir hafa margir hverjir lýst að hafi verið skelfilegt í samskiptum við jafnvel vini og kunningja í öðrum ríkjum. Það virðist vera að þá þegar hafi stolt okkar og trú á eigin getu verið kýlt niður, ofan í maga og enginn hafi þorað að bera höfuðið hátt og berjast fyrir hagsmunum okkar heldur höfum við jafnvel gengið um, eins og kom fram í máli Ingibjargar Sólrúnar, eins og sakamenn.

Bréf hæstv. ráðherra Jóhönnu Sigurðardóttur til Stoltenbergs bar þess merki. Bréfi hæstv. forsætisráðherra til kollega sinna í Hollandi og Bretlandi hefur ekki verið svarað nema þá að hluta til frá Hollandi. Kannski hefur það verið stílað á vitlaust heimilisfang á breska forsætisráðherrann því að hann hefur ekki svarað. Kannski býr hann ekki í Downing-stræti 10.

Umræður sem urðu í kjölfarið á því að fulltrúar Framsóknarflokksins fóru í Noregsferð og ræddu við þingmenn allra flokka þar og sú upplifun sem þingmenn hafa fengið með því að ræða við kollega sína í öðrum löndum, á Evrópuþinginu, í Norðurlandaráði og Vestnorræna ráðinu og annars staðar hefur leitt í ljós að það er gríðarlegur skortur á þekkingu og menn eru í svo miklu myrkri um þá stöðu sem er á Íslandi. Þar ræður ábyrgð ríkisvaldsins auðvitað mestu því þarna er um að ræða skort á formlegum samskiptum. Hins vegar gætum við vel spurt okkur sjálf, við þingmenn hér í salnum, hvort við hefðum ekki átt — og það hefur reyndar komið fram í umræðunni sífellt oftar og oftar upp á síðkastið — að við ættum sjálf að búa til þingnefnd og ferðast á milli landa eða þá að gera það bara upp á okkar eigið einsdæmi.

Ég notaði hluta af ferð sem ég fór til Kaupmannahafnar í haust til þess að óska eftir fundum með þingmönnum systurflokka Framsóknarflokksins á danska þinginu og þær umræður voru ákaflega gefandi. Þær umræður sannfærðu mig um það sem mig svo sem grunaði, þ.e. að vanþekking á stöðu okkar væri gríðarleg en það sem kom mér kannski á óvart var það að þær upplýsingar sem menn töldu sig hafa voru svo allt, allt annars eðlis en sú staða sem höfum fengið að upplifa m.a. frá hæstv. ríkisstjórn og úr fjölmiðlum. Það kom til að mynda öðrum þingmanninum sem ég ræddi við, sem á hluta að ríkisstjórnarsamstarfi í Danmörku, algjörlega á óvart að um miðjan október værum við ekki búin að fá lánin frá Norðurlöndunum og það fyrir löngu. Það kom honum líka gríðarlega á óvart að Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn hefði ekki tekið áætlunina til endurskoðunar frá því í febrúar og það kom honum kannski enn meira á óvart þegar ég sagði honum að það væri að sögn annars vegar vegna þess að Norðurlöndin hefðu krafist þess að endurskoðunin hjá Alþjóðagjaldeyrissjóðnum kæmi fyrst eða þá að Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn neitaði að taka þessa endurskoðun upp fyrr en við værum búin að ganga frá Icesave. Þetta hafði viðkomandi þingmaður aldrei heyrt og hafði þó nýlega verið í viðræðum við utanríkisráðherra Danmerkur sem væntanlega hafði sínar upplýsingar héðan úr utanríkisráðuneytinu á Íslandi.

Upplýsingagjöfin héðan hefur því verið afleit og ég gat ekki betur heyrt á þessum þingmönnum báðum — annar er reyndar utan stjórnar en hinn í stjórninni — en að báðir teldu að þeir mundu vilja hafa gengið miklu lengra í því að koma til móts við sjónarmið Íslendinga ef þeir hefðu haft vitneskju um hvernig staðan raunverulega væri.

Frú forseti. Á sumarþingi virtist vera að meiri hluti stjórnarþingmanna teldi að við værum á einhvern hátt siðferðislega skuldbundin til að standa að fullu við Icesave-skuldbindingarnar. Það er út af fyrir sig ekkert óeðlilegt eða óskynsamlegt eða ópólitískt að hafa þá skoðun að við Íslendingar eigum að standa við skuldbindingar okkar. En eins og ég ræddi áðan, þar liggur einfaldlega efinn, þar liggur vafinn: Eru skuldbindingar einkabanka og mislukkuð Evróputilskipun um innlánstryggingarsjóði okkar mál, er það mál þjóðarinnar? Er ekki skylda okkar, þingmanna og ríkisstjórnar, að verja hagsmuni þjóðarinnar með öllum tiltækum ráðum? Er það ekki siðferðileg, pólitísk og skynsamleg skylda að berjast sameiginlega fyrir hagsmunum þjóðarinnar? Það er eitthvað sem mér fannst þegar þetta var til umræðu á sumarþingi og mér finnst enn að við höfum sameinast um, allir þingmenn allra flokka. Mér finnst satt best að segja sú umræða sem nú fer fram með ólíkindum, eins og ég kom hér inn á í upphafi máls míns, að við séum hér að ræða daginn út og daginn inn út í hálftóman sal þar sem meiri hluti stjórnarinnar, stjórnarmeirihlutinn, þingmenn stjórnarflokkanna taka ekki þátt í umræðunni og ráðherrar hunsa jafnvel spurningar sem lagðar eru fram.

Á sumarþinginu kom fram, svo ég ítreki það, að það virtist vera að siðferðileg afstaða sumra stjórnarþingmanna að við ættum að greiða þessar skuldir, þetta væru okkar skuldir, þjóðarinnar. Við, þ.e. öll þjóðin, höfum því tekið sameiginlega á okkur skuldbindingar einkafyrirtækis á grundvelli þessarar mislukkuðu Evróputilskipunar. Á sumarþinginu má segja að þingið hafi á margan hátt tekið eðlilegt vald sitt til sín og það er kannski rétt að geta þess hér í framhjáhlaupi að kannski var þetta eina málið þar sem allir þingmenn, þ.e. líka stjórnarandstaðan, komu að málum því að í öðrum málum hefur ríkisstjórnin og framkvæmdarvaldið því miður valtað yfir löggjafarþingið og löggjafarvaldið og stjórnarandstaðan hefur gjarnan frétt af málum ýmist í blöðum eða frá blaðamannafundum. Þar má síðast nefna hugmyndir um skatta og skattafrumvörp sem við erum ekki enn farin að ræða þó að þau mál hafi verið í umræðu í fjölmiðlum í hálfan mánuð.

Á þessu ágæta sumarþingi og langa, þar sem þingið tók þetta mál til mikillar umfjöllunar og reyndi að breyta vonlausum samningi með því að setja margvíslega fyrirvara við ríkisábyrgðina og það var — og það er best að ítreka það hér í þessum ræðustól — það var vegna harðfylgis stjórnarandstöðunnar, fjölmiðla og þjóðarinnar að upphaflegi samningurinn sem lá fyrir var ekki keyrður í gegn í upphafi sumarþings án þess að kynna hann, hvorki fyrir þingi né þjóð. Það er rétt að ítreka að það virtist vera sem það stæði til í upphafinu.

Samningurinn var að lokum gerður opinber og fékk mikla skoðun og mikla gagnrýni og það var jafnframt vegna harðfylgis stjórnarandstöðunnar, fjölmiðla og þjóðarinnar að þeir fyrirvarar sem í lok sumars fylgdu meirihlutaáliti fjárlaganefndar voru fram komnir. Á sumarþinginu voru stöðugt að koma fram nýjar upplýsingar, ný sjónarmið sem satt best að segja gerðu hinn upprunalega samning ekki betri, sjónarmið sem urðu til þess að enn og aftur var reynt að setja nýja fyrirvara við hinn vonlausa samning.

Það er mikilvægt að geta þessa þar sem nú í haust, eftir að við erum enn og aftur komin með í raun og veru nýjan samning í hendurnar, eru enn og aftur að koma fram ný sjónarmið sem taka til hins upprunalega samnings. Um síðustu helgi komu fram a.m.k. tvö atriði og það má segja að það séu jafnvel eitt til tvö atriði á viku sem kalla á að það þurfi að fjalla um málið í nefndum þings. Þess vegna væri eðlilegt, frú forseti, að kalla saman fjárlaganefndina, sem og efnahags- og skattanefnd og jafnvel, eins og fram hefur komið, utanríkismálanefnd til þess að fjalla um sum þeirra atriða.

Annað þeirra atriða sem fram kom um helgina varðar málefni sem tengjast Landsbankanum, þ.e. skuldabréfum um uppgjör á eignum og skuldum vegna gamla Landsbankans og nýja Landsbankans. Ég ætla að vitna í forsíðufrétt Morgunblaðsins á laugardaginn þar sem var fjallað um þetta, með leyfi forseta:

„Tilkynnt var um rammasamkomulag um skiptingu á milli bankanna í síðasta mánuði. Það felur meðal annars í sér að nýi bankinn gefi út 260 milljarða króna skuldabréf til tíu ára og verður það gengistryggt. Ekki liggur enn fyrir endanleg útfærsla á skuldabréfaútgáfunni en ljóst má vera að Nýi Landsbankinn mun þurfa að greiða að meðaltali 26 milljarða króna í gjaldeyri auk vaxta af láninu á ári. Þetta þýðir með öðrum orðum aukið útflæði gjaldeyris úr hagkerfinu og þar af leiðandi þrýsting til veikingar krónunnar.“

Síðar í sömu frétt kemur það m.a. fram að að öllu óbreyttu er sem sagt Nýi Landsbankinn kominn í þá stöðu að þurfa að selja krónur fyrir gjaldeyri í umtalsverðum mæli og það á meðan Seðlabankinn er að beita inngripum til þess að styðja við krónuna.

Þetta er staðfesting á því sem menn hafa heyrt á liðnum vikum um að Landsbankinn sé í raun og veru að ryksuga upp allan gjaldeyri á markaðnum og hafi gert lengi og veiki með því gengi krónunnar og þetta samspil milli ríkisbankans Landsbankans og Seðlabankans er eiginlega óskiljanlegt.

Annað atriði sem jafnframt kom fram um helgina og hefur reyndar verið rætt í ræðustóli í dag og kvöld er úr álitsgerð Daniels Gros sem birtist um helgina en Daniel Gros er afar þekktur hagfræðingur á sviði peningamála fyrir utan að hann er forstöðumaður Evrópufræðastofnunar í Brussel og situr í stjórn Seðlabankans eða Seðlabankaráðs fyrir hönd Framsóknarflokksins. Í álitsgerð hans kom fram að úr því, eða við getum sagt að á grundvelli þessarar mislukkuðu Evróputilskipunar, að vegna jafnræðis ættum við að bera ábyrgð á þessum skuldum eða innlánsreikningunum, bæði í Hollandi og Bretlandi, Icesave-reikningunum, þá ætti slík jafnræðishugsun jafnframt að gilda í vaxtabyrðinni sem tryggingarsjóðirnir þurfa að taka.

Ef ég má vitna til fréttar á mbl.is eftir Ívar Pál Jónsson þar sem hann vitnar í álitsgerð Daniels Gros, hagfræðings og bankaráðsmanns Seðlabanka Íslands, þá segir hann að ef jafnræðisregla samningsins um Evrópska efnahagssvæðið gilti þyrfti íslenska ríkið að greiða Bretum milljarða evra, 185 milljónum minna í vexti af Icesave-láni. Í álitsgerðinni varpar Gros fram þeirri spurningu hvort Bretum og Hollendingum beri að veita Íslendingum sömu lánskjör og eigin tryggingarsjóðum í samræmi við jafnræðisreglur samningsins um Evrópska efnahagssvæðið. Það þýddi að vaxtagreiðslur Íslendinga vegna hinnar svokölluðu Icesave-skuldar við Breta yrðu allt að einum milljarði evra minni en ella.

Eins og við þekkjum eru ársvextirnir um 5,55% við þessa sjóði Breta og Hollendinga, a.m.k. hinna bresku er tilfellið að breski sjóðurinn er að fá lán á 1,5% vöxtum, og munar um minna.

Það hefur jafnframt komið fram að aðstoðarmaður hæstv. fjármálaráðherra vísaði þessu að sjálfsögðu á bug eins og ríkisstjórnin gerir því miður alltaf þegar það virðist vera að við séum komin með einhvern viðspyrnupunkt sem við getum nýtt í samningaviðræðum við Breta og Hollendinga. Það kom fram í ræðu hæstv. fjármálaráðherra í óundirbúnum fyrirspurnum í dag og var haft var eftir aðstoðarmanni ráðherrans að það væri ekki hægt að svara þessu þar sem ekki væri ljóst hvaða jafnræðisreglu væri um að ræða og þetta lyti frekar samkeppni en nokkurs annars og samkeppnislögum.

En ef við að grípum niður í fylgiskjal með Evrópska efnahagssamningnum stendur einfaldlega að þar sem stefnt sé að, þar sem fjallað er um dómstóla og samræmda túlkun og ákvæði í löggjöf bandalagsins sem tekin eru upp efnislega í þennan samning, með leyfi forseta:

„… svo og að koma sér saman um jafnræði gagnvart einstaklingum og aðilum í atvinnurekstri að því er varðar fjórþætta frelsið og samkeppnisskilyrði.“

Mér finnst því nokkuð ljóst að EES-samningurinn hafi tiltekið í þessu tilviki ekki einungis samkeppnisskilyrði heldur fjórþætta frelsið sjálft.

Í 4. gr. samningsins sjálfs, undir kaflanum Markmið og meginreglur stendur, með leyfi forseta:

„Hvers konar mismunun á grundvelli ríkisfangs er bönnuð á gildissviði samnings þessa nema annað leiði af einstökum ákvæðum hans.“

Mér finnst það ljóst að þetta sé sjónarmið sem við ættum að skoða nánar. Það kom reyndar fram hjá hv. þm. Sigmundi Davíð Gunnlaugssyni, formanni Framsóknarflokksins, að honum fyndist álitsgerð Gros mjög áhugaverð og í áðurnefndri frétt í Morgunblaðinu sagði hann að fréttin væri enn eitt dæmi um að stórt grundvallaratriði í þessu máli liti dagsins ljós án þess að það hafi komið fram áður í meðförum þingsins.

Á sömu blaðsíðu var haft eftir Evrópufræðingnum Eiríki Bergmanni Einarssyni, með leyfi forseta:

„Þetta sem Daniel Gros bendir á finnst mér vera miklu frekar pólitískt sjónarmið en lagalegt. Sem slíkt er það fyllilega réttmætt, því eðli Evrópusamstarfs er með þeim hætti að það hefði átt að vera sameiginlegt verkefni Evrópuþjóða að leysa úr þeim vanda sem kom upp þegar íslensku bankarnir féllu.“

Seinna í sömu frétt segir Eiríkur að málið sé í eðli sínu pólitískt og verði ekki leyst nema á hinum pólitíska vettvangi. Hann segir enn fremur að íslensk stjórnvöld virðist ekki skilja þetta, hvorki núverandi né hin fyrri. Þau hafi gloprað út úr höndunum hverju tækifærinu á fætur öðru til að ná hagsmunum Íslendinga betur fram.

Þetta segir kannski fleira en mörg orð um það hversu stórt mál þetta er og þau sem eru að koma fram nú, eins og ég segi, kannski eitt til tvö atriði á viku og gera það að verkum að manni finnst það alveg með ólíkindum að við séum að ræða þetta hér út í tómið, eins og ég hef sagt fyrr í kvöld, að við séum ekki að ræða þetta við meiri hluta stjórnarþingmanna eða stjórnarmeirihlutann eða hæstvirta ráðherra.

Það eru fleiri sem hafa lagt þessu máli lið og má þar nefna Gunnar Tómasson hagfræðing, sem er óþreytandi að senda til okkar þingmanna hugleiðingar sínar og það er jafnvel svo að það eru ekki einungis Íslendingar sem taka þátt í þeirri umræðu og það er alls ekki svo að hv. þingmenn stjórnarandstöðunnar séu þeir einu sem gagnrýni það sem gert er. Í bréfi sem okkur þingmönnum barst í dag frá Gunnari Tómassyni sendi hann jafnframt íslenskun sína á yfirlýsingu sem okkur barst frá tveimur þekktum hagfræðingum frá Bandaríkjunum, þeim James K. Galbraith prófessor í stjórnmálum og viðskiptatengslum og William Black sem er lektor í hagfræði og lögum í University of Missouri Kansas City. Þeir hefja bréf sitt með þessum hætti:

„To our friends in Iceland,“ sem er í þýðingu Gunnars: Yfirlýsing til vina okkar á Íslandi, þar sem þeir fara yfir það hversu varasamt það er að yfirtaka frekari skuldir, taka frekari skuldir á okkur og vitna þar til skýrslu Alþjóðagjaldeyrissjóðsins.

Frú forseti. Frá upphafi þessa máls hafa fjölmargir aðilar utan þings lagt gríðarlega vinnu í að skoða og koma með athugasemdir, tillögur og ábendingar. Á engan er hallað þegar nefndur er sérstaklega Indefence-hópurinn sem hefur verið óþreytandi að benda á galla, benda á hættur við samninginn og reynt að bæta stöðu Íslands með málefnalegum tillögum. Nú síðast birtu forsvarsmenn Indefence grein í Morgunblaðinu og jafnframt fréttatilkynningu frá 2. nóvember þar sem þeir fóru yfir helstu atriði hins núverandi samnings. Greinin sem birtist í Morgunblaðinu bar yfirskriftina „Vanþekking og óskhyggja stjórnvalda um Icesave“, þar sem fjallað er m.a. bæði um hæstv. utanríkisráðherra og formann fjárlaganefndar sem hafa haldið því fram, eins og kemur fram í grein þessara ágætu fulltrúa Indefence, með leyfi forseta:

„Formaður fjárlaganefndar, Guðbjartur Hannesson, sagði á Alþingi 22. október, að „ef okkur er misboðið er það nú einu sinni þannig að íslenska Alþingi getur hvenær sem er fellt þessa ríkisábyrgð úr gildi. Hafa menn ekkert áttað sig á því?“ — Og utanríkisráðherra, Össur Skarphéðinsson, bætti um betur: „Herra trúr, Alþingi er fullvalda og fullveðja. Alþingi getur hvenær sem það telur að það hafi siðferðileg og þjóðarleg rök breytt sínum lögum.“ — Og síðar: „Alþingi getur hvenær sem það vill takmarkað ríkisábyrgðina.“

Nú langar mig að velta því upp hvort ekki sé gáfulegra að reyna að verjast á meðan við erum í orrustunni en ekki hugsa sér það að fara í einhverja orrustu síðar sem við þurfum þá að finna bæði orrustuvöllinn og þann sem við erum að berjast við.

Eða eins og segir í síðasta kafla greinar þessa ágæta hóps sem ber yfirskriftina: Að semja nú, svíkja síðar, með leyfi forseta:

„Að semja nú og svíkja síðar er ekki vænlegt til þess að skapa Íslendingum traust á alþjóðlegum vettvangi. Alþingi setti skýra fyrirvara við ríkisábyrgð vegna Icesave-samninganna í sumar, sem áttu að gera þjóðinni kleift að standa efnahagslega undir greiðslum af Icesave-skuldbindingunni. Það er lágmarkskrafa að Alþingi spyrni nú við fæti og tryggi, eins og hægt er, að íslenska ríkið hafi getu til að standa við gerða samninga.“

Frú forseti. Sjónarmið fjölmargra íslenskra lögmanna eins og Stefán Más, Lárusar Blöndals, Ragnar Halls, Eiríks Tómassonar og reyndar mun fleiri, eru sum hver rituð inn í fyrirvarana en sum ekki, þ.e. þá fyrirvara sem við settum í sumar. Nokkur þeirra sjónarmiða sem þar komu fram settum við framsóknarmenn fram í breytingartillögu sem við lögðum fram á sumarþingi til að reyna að betrumbæta stöðu þjóðarinnar gagnvart viðsemjendunum, Bretum og Hollendingum. Þar lögðum við reyndar til sem okkar aðaltillögu að semja á nýjan leik. Það var fellt. Síðan er borið á borð okkar eftir langan tíma japls, jamls og fuðurs og má þar nefna alls kyns undarlega tilburði í upphafi september þar sem var óljóst hvort búið væri að kynna fyrirvarana fyrir Bretum og Hollendingum og hvað þeir hefðu sagt, að þegar allt hefur síðan komið til síns enda erum við komin með eins konar gagntilboð í hendurnar, sem við framsóknarmenn reyndar vöruðum við í sumar, þ.e. að Bretar og Hollendingar mundu hugsanlega taka þannig á málunum. Þar sem nú er því haldið fram af stjórnarmeirihlutanum að fyrirvararnir séu betri eftir að gagnaðilar okkar hafi farið höndum um þá. (Gripið fram í.) Finnst einhverjum — og það má spyrja: Finnst einhverju barni það að án þess að lesa sé það líklegt að gagnaðilar í orrustu hafi bætt samningsstöðu okkar, bætt fyrirvarana fyrir okkar hönd? Nei, enda kemur það auðvitað í ljós við nánari skoðun að nánast er búið að taka allar varnir úr þeim sem þó voru kannski of veikar fyrir ef eitthvað var.

Frú forseti. Við skoðun samningsins kom í ljós, og ég held að segja megi að þrátt fyrir allt séu allir þingmenn og þjóðin sammála um að ábyrgðin á samningnum og áhættan ef illa færi væri öll Íslands megin í samningnum. Þar er ekkert jafnræði, þar er engin sameiginleg pólitísk ábyrgð. Bretar og Hollendingar virðast hafa fengið allt sitt fram og taka enga áhættu á sig — og má þá vitna til Ingibjargar Sólrúnar — þrátt fyrir að það hljóti að vera viðurkennt af öllum og þar með Bretum og Hollendingum líka, að hagsmunir allra landanna þriggja séu samtvinnaðir í því að vel gangi í íslensku efnahagslífi.

Sú staða er ekki betri nú eftir að Bretar og Hollendingar hafa komið með sitt gagntilboð. Á sumarþinginu skapaðist að lokum nokkuð breið samstaða um að setja fram fyrirvara til að lágmarka áhættu Íslands. Þannig var það reyndar ekki í upphafi. Lengi vel voru meira að segja nokkrir þingmenn, þar meðtalinn hv. varaformaður fjárlaganefndar auk hæstv. fjármálaráðherra á þeirri skoðun að upphaflegi samningurinn hafi bara verið nokkuð góður og fyrirvararnir hafi ekki breytt honum nokkuð sem heiti enda væri ekki hægt að breyta góðum samningi.

Auðvitað hefði verið best að strax í vor hefðu allir þingmenn, þar með talinn hæstv. forsætisráðherra og Samfylkingin öll, hæstv. fjármálaráðherra og fylgismenn hans innan Vinstri grænna, viðurkennt að samningurinn væri óaðgengilegur fyrir íslenska þjóð og þá hefðu allir þingmenn allra flokka reynt að finna alla þá fyrirvara við ríkisábyrgðina sem menn teldu að þyrfti fyrir íslenska þjóð. Svo varð því miður ekki og þess vegna eigum við enn þessa skrýtnu umræðu þar sem stjórnarandstaðan er í þeirri sérkennilegu stöðu að reyna stöðugt að betrumbæta frumvarp ríkisstjórnarinnar um ríkisábyrgð á lán Tryggingarsjóðs innstæðueigenda, koma fram með tillögur sem gera íslenskri þjóð gerlegt að standa við skuldbindingar sínar án þess að hneppa þjóðina í skuldafangelsi. Sú umræða, þessar viðræður sem við eigum eru ekki við bresk eða hollensk yfirvöld, nei, þessar viðræður eru við stjórnarmeirihlutann. Er hægt að hugsa sér sérkennilegri umræðu?

Þar sem nú gengur á tíma minn, frú forseti, ætla ég að geyma það til seinni tíma að fara yfir þær breytingar sem hafa orðið á samningnum með fyrirvörunum í meðförum Breta og Hollendinga til seinni ræðu.

Frú forseti. Eftir að sú mikla vinna sem lögð hefur verið fram, sérstaklega hér á sumarþinginu, í þá átt að fá samninginn fram í dagsljósið, skoða hann, fá sérfræðinga til að meta, gefa álit, setja fyrirvara sem margir töldu nægjanlega, þó eins og ég vil ítreka að við framsóknarmenn töldum þó betra að semja að nýju strax og gefa það strax út að þetta væri óaðgengilegt og þyrfti að semja að nýju, þá erum við hér á endasprettinum að reyna að enda þetta mál. Í stað þess að í sumar gátum við sagt að samningurinn með fyrirvörum væri þess eðlis að við værum að setja punkt við umræðu um vonlausan Icesave-samning með því að minnka áhættuna, minnka áhættuna með því að setja fyrirvara við ríkisábyrgðina við samninginn. Ríkisábyrgð sem var samþykkt á sumarþinginu staðfesti samninginn, hinn ósanngjarna Icesave-samning, en nú eru horfin þau mörk sem fyrirvararnir settu. Samt sem áður er ætlast til þess af stjórnarmeirihlutanum að þingið samþykki þennan óskapnað.

Frú forseti. Skoðun mín og okkar framsóknarmanna hefur verið ljós lengi, bæði á sumarþingi sem og nú, við teljum, og höfum fengið stuðning við þá skoðun okkar frá mörgum utan þings sem innan, að semja þurfi upp á nýtt. Í því sambandi má nefna að sérfræðingur í skuldaskilum þjóða og milliríkjasamningum, Lee Buchheit, sem kom fyrir fjárlaganefnd í sumar taldi að í raun skipti engu hvað við gerðum, niðurstaðan yrði alltaf sú sama að nauðsynlegt væri að fara til Breta og Hollendinga og semja að nýju því að samningurinn væri einfaldlega slæmur og óaðgengilegur fyrir íslenska þjóð. Að öllu óbreyttu mætti segja um niðurstöðu Icesave-samninganna sem afurðar og nota mætti nýyrðið að það sé „ömurð.“

Orrustan er töpuð en stríðið er að hefjast sögðum við á sumarþinginu. Það er afleitt ef við töpum þessari orrustu líka. Ef það gerist verður sífellt erfiðara að snúa vörn í sókn en þar munum við framsóknarmenn leggjast á eitt ásamt og með þjóðinni og vonandi með sem allra flestum flokkum þingsins að berjast fyrir endurreisn íslensks efnahagslífs. Við viljum geta gengið upprétt þjóð með öðrum þjóðum. Það gerist ekki með því að taka á sig ósanngjarnar og óréttmætar byrðar sem knýja þjóðina niður á hnén.