138. löggjafarþing — 30. fundur,  24. nóv. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

76. mál
[22:38]
Horfa

Sigurður Ingi Jóhannsson (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þm. Margréti Tryggvadóttur spurninguna. Það er kannski einfalt fyrir mig að segja að það sé mitt mat að ég telji að það sé allsendis útilokað að við getum staðið við skuldbindingar okkar með því að bæta öllu þessu á okkur sem gert hefur verið, en auðvitað þurfa að fylgja því einhver rök. Ég óttast mjög að við séum að falla inn í svokallaða vaxtagildru þar sem við munum ævinlega bara borga vexti en höfuðstóllinn standi eftir. Í því sambandi er rétt að benda á upplýsingar sem m.a. koma úr skýrslu Alþjóðagjaldeyrissjóðsins og hv. þm. Þór Saari sýndi okkur fyrr í kvöld þar sem það virðist vera að það þurfi einhvers konar barbabrellu í íslensku efnahagslífi til þess að við förum að skila gjaldeyrisafgangi svo við getum staðið undir öllu því útstreymi gjaldeyris sem til þarf til að geta greitt þessar skuldir.