138. löggjafarþing — 30. fundur,  24. nóv. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

76. mál
[22:43]
Horfa

Sigurður Ingi Jóhannsson (F) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka fyrirspurn hv. þm. Ásbjörns Óttarssonar. Hann spyr mig hvort mér finnist ríkisstjórnin hafa staðið sig í að kynna þessa fyrirvara og það kom fram í frammíkalli hæstv. utanríkisráðherra að þar hefði þurft skapandi hugsun. Ég held að niðurstaða okkar sé, þegar við horfum til baka, að það hafi þá örugglega skort þessa skapandi hugsun hjá ríkisstjórninni þar sem það virðist ekki vera að þessar ríkisstjórnir og ráðamenn Hollendinga og Breta hafi skynjað eða skilið hvernig þeir fóru fram með málið því að a.m.k. sitjum við uppi með það í dag að búið er að taka allar varnir úr fyrirvörunum og það sem átti að rúmast innan samningsins í sumar. Það verður að segjast eins og er að það gerir það alveg örugglega í dag því að án fyrirvaranna (Forseti hringir.) sem við settum í sumar er samningurinn eins og við þekkjum hann (Forseti hringir.) engin vörn, hvorki lagalega né efnahagslega fyrir Íslendinga.