138. löggjafarþing — 30. fundur,  24. nóv. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

76. mál
[22:47]
Horfa

Frsm. 3. minni hluta fjárln. (Kristján Þór Júlíusson) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég vil fyrst af öllu þakka hv. þm. Sigurði Inga Jóhannssyni mjög málefnalega og góða ræðu og sterka. Þar var gríðarlega vel farið í gegnum allt málið. Hann nefndi áðan að þetta mál snerist kannski fyrst og fremst um spurninguna hvernig þessi ríkisstjórn hugsaði. Við skulum fara aðeins í gegnum það.

Oddvitar ríkisstjórnarinnar, hæstv. forsætisráðherra og hæstv. fjármálaráðherra, hafa samanlagt hátt í 60 ára þingreynslu og gefa sig út fyrir það í sínu stjórnarsamstarfi að stunda samráðspólitík, gagnsæja pólitík o.s.frv. Enginn virðist þó koma auga á þá starfshætti. Hér hefur verið nefnt þetta frábæra tilsvar hæstv. utanríkisráðherra frá í sumar um skapandi hugsun til að fella fyrirvarana inn í fyrirliggjandi samning. Getur hv. þm. Sigurður Ingi Jóhannsson verið sammála mér um að líkast til orsakist fjarvera hæstv. forustu ríkisstjórnarinnar (Forseti hringir.) af því að hún sé að reyna að beita skapandi hugsun á þá afurð sem starfsmaður þeirra, Indriði H. Þorláksson, (Forseti hringir.) leggur fyrir þingið?