138. löggjafarþing — 30. fundur,  24. nóv. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

76. mál
[22:48]
Horfa

Sigurður Ingi Jóhannsson (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þm. Kristjáni Þór Júlíussyni ágætar vangaveltur og fyrirspurn. Ég get auðvitað verið sammála þingmanninum um að margt sérkennilegt gæti skýrt fjarveru forustuflokka ríkisstjórnarinnar hér við umræðuna og kannski ekki síst að þeir séu að skapa svigrúm fyrir skapandi hugsun aðstoðarmanna sinna. Ekki veit ég það, það gæti verið.

Ég held að því hafi verið fleygt fram í umræðunni í kvöld að hæstv. forsætisráðherra hafi talað í sumar á sumarþingi í alls 42 mínútur um þetta mikla hagsmunamál en nú á haustþinginu þegar þessi umræða fer fram held ég að hæstv. ráðherra hafi ekki stigið í pontu til efnislegrar umræðu. Ég þekki ekki nákvæmlega (Forseti hringir.) hvernig hæstv. utanríkisráðherra eða fjármálaráðherra hafa eytt sínum tíma hér í pontu (Forseti hringir.) til þess að ræða við okkur þingmenn en þetta eru auðvitað getgátur um það hvernig ríkisstjórnin hugsar.