138. löggjafarþing — 30. fundur,  24. nóv. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

76. mál
[22:52]
Horfa

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir (S) (andsvar):

Frú forseti. Ég hlustaði með athygli á þessi orðaskipti félaga minna í stjórnarandstöðunni, hv. þm. Sigurðar Inga og Kristjáns Þórs Júlíussonar. Ég veit að hv. þm. Sigurður Ingi Jóhannsson er mjög prúður sveitapiltur, stundum fannst mér hann eiginlega of prúður hér áðan því ég verð að segja — og ég er náttúrlega bara óhefluð stelpa úr Breiðholtinu — að ég er ekki bara hneyksluð heldur einnig afar vonsvikin yfir því að ríkisstjórnin talaði ekki við Breta, ekki við Hollendinga og hér í dag og á fimmtudaginn er skýrt og klárt að hún vill ekki tala við þingið. Ríkisstjórnin á ekkert vantalað við þingið í þessu erfiða máli, sérstaklega ekki forsætisráðherra. Mér finnst það miður og þess vegna hefði ég gjarnan viljað heyra hv. þm. Sigurð Inga Jóhannsson segja skýrt (Forseti hringir.) og skorinort hver hans skoðun sé á því að forsætisráðherra þjóðarinnar skuli ekki tjá sig (Forseti hringir.) í þessu máli, þessari erfiðu milliríkjadeilu. Hvernig telur hann það hafa áhrif á framgang málsins?