138. löggjafarþing — 30. fundur,  24. nóv. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

76. mál
[22:59]
Horfa

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir (S) (um fundarstjórn):

Frú forseti. Ég vil í ljósi þeirra fyrirspurna sem við höfum beint til forseta í dag fá að vita hvort boðað verði til fundar í fjárlaganefnd og ef ekki, hvort forsætisnefnd muni funda til þess að fara yfir þær óskir okkar í stjórnarandstöðunni að fjárlaganefnd fái tækifæri til þess að fara yfir þær ábendingar sem hafa verið settar fram af mörgum fræðimönnum eftir að 2. umræða hófst í síðustu viku. Við teljum fyllstu ástæðu til að gera hlé á þessari umræðu vegna þeirra upplýsinga þannig að fjárlaganefnd geti farið yfir málið. Ekki nema það sé tilgangur þessa alls að halda bara áfram, keyra þetta mál í gegn. Þá væri ágætt að fá að vita það hreint og klárt, hæstv. forseti, á að keyra þetta mál í gegn án þess að líta yfir gagnmerkar ábendingar frá fræðimönnum? Ég vil gjarnan fá að vita hvort forseti hafi athugað hvort forsætisnefnd eða (Forseti hringir.) fjárlaganefnd muni funda núna á næstu (Forseti hringir.) tímum.