138. löggjafarþing — 30. fundur,  24. nóv. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

76. mál
[23:05]
Horfa

Unnur Brá Konráðsdóttir (S) (um fundarstjórn):

Hæstv. forseti. Enn hafa ekki fengist svör við því frá hæstv. forseta hversu lengi þessi fundur muni standa. Ég óska enn og aftur auðmjúklega eftir því að hæstv. forseti upplýsi þingmenn og þingheim allan um hve lengi standi til að halda þingfundi gangandi. Þetta er búinn að vera langur og strangur dagur í þinginu, ýmsir þingmenn eiga um langan veg að fara til síns heima og margar þingnefndir hefja fundi í fyrramálið kl. 8.30, eftir því ég best veit.

Jafnframt hef ég óskað eftir því að fá að vita hvort hæstv. ráðherrar, bæði hæstv. fjármálaráðherra og hæstv. forsætisráðherra, séu í húsi og þá jafnframt hvort hv. formaður og varaformaður fjárlaganefndar verði hér til að hlýða á næsta ræðumann sem virðist vera sú sem hér stendur.