138. löggjafarþing — 30. fundur,  24. nóv. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

76. mál
[23:08]
Horfa

Unnur Brá Konráðsdóttir (S):

Hæstv. forseti. Við fjöllum hér um eitt stærsta mál Íslandssögunnar. Í dag hefur vakið athygli hversu litla aðkomu og lítinn áhuga hv. þingmenn stjórnarliðsins hafa á að blanda sér í þessa umræðu. Það vekur vissulega athygli og vekur ákveðnar áhyggjur. Nú sé ég að hv. formaður fjárlaganefndar gengur í hliðarsal og fagna ég honum sérstaklega og vona að hann haldi út að hlusta á ræðu mína sem u.þ.b. 39 mínútur og 15 sekúndur munu vera eftir af. Það er gott að vita að hv. formaður fjárlaganefndar hefur áhuga á því.

Virðulegi forseti. Miklar hremmingar hafa gengið yfir íslenska þjóð og við sitjum hér alþingismenn Íslendinga og erum að reyna að greiða úr stórum og flóknum viðfangsefnum eftir bankahrunið. Það er gríðarlega mikilvægt að einhvers konar samstaða ríki um þær leiðir sem valið er að fara í þessum stærstu málum þar sem sagan á eftir að dæma hvernig við tókum á þeim. Mjög mikilvægt er að fólkið í landinu fái á tilfinninguna að hér starfi réttsýnt fólk sem hafi að markmiði að leita réttra leiða, sanngjarnra lausna og vinni saman að því að leysa þessi flóknu viðfangsefni. Ég er ekki alveg viss um að þau skilaboð sem koma frá þinginu í dag séu í þá átt, því miður.

Mörg mistök hafa verið gerð á þeirri leið sem við höfum verið á frá því bankarnir hrundu fyrir rúmu ári síðan en ekki síst í þessu máli. Það er ekki bara fyrri ríkisstjórn sem hefur verið gagnrýnd fyrir ýmsar hliðar á þessu máli heldur hefur ekki síður núverandi ríkisstjórn tekið þetta mál og fært það í algjöran hnút. Ég mun fara yfir það í ræðu minni á eftir.

Allt frá því við sátum hér í sumar og fregnir bárust af því að komnar væru niðurstöður í þessar samningaviðræður — reyndar hafði verið neitað að nokkuð væri að frétta af því tveimur dögum áður en niðurstaðan svo leit dagsins ljós og þá var mikil tregða við að upplýsa þetta mál. Við stóðum hér í þingsalnum með það á tilfinningunni að við ættum ekki að fá að sjá hina margumtöluðu Icesave-samninga. Það var tilfinningin að upphaflega áætlunin væri að þingheimur og þjóðin fengju ekki að sjá þessa samninga. Vissulega hafa ýmsir stjórnarþingmenn fullyrt að það sé rangt og hafi aldrei verið meiningin, þetta hafi bara verið einhver misskilningur, en það var virkilega þannig og við sem hér stóðum vitum það öll. Það stóð til að leiða þetta mál til lykta án þess að upplýsa þjóðina um hvað væri fólgið í samningunum.

Ríkisstjórnin lagði fram á Alþingi frumvarp til laga sem var kollvarpað í meðförum Alþingis, sem betur fer. Um það tókst ákveðin samstaða í fjárlaganefnd að láta þetta mál ekki verða að veruleika eins og það hafði litið dagsins ljós frá ríkisstjórnarflokkunum. Þar mæddi mikið á þeim alþingismönnum sem sátu í fjárlaganefnd og mér vitanlega sitja þar enn sömu einstaklingar að mestu leyti, nema þeir sem voru kannski aðallega á sjó í sumar sem hafa bæst í hópinn í vetur.

Þau skilaboð komu frá samstarfsmönnum forustumanna ríkisstjórnarinnar í sumar að það væri Ríkisendurskoðun sem fengi afrit af þessum samningum og reifaði það svo fyrir okkur þingmönnum. Það var upphaflega planið. Ég held að rétt sé að við rifjum þessar staðreyndir upp vegna þess að það er gríðarlega hollt að við höfum þær í huga þegar við skoðum þetta mál í fullu samhengi. Það er mjög mikilvægt að við gleymum ekki sögunni og hversu langan veg við höfum farið frá því við stóðum hér agndofa yfir þessum vinnubrögðum ríkisstjórnarflokkanna.

Þá má heldur ekki gleyma þætti þeirra fjölmörgu einstaklinga sem hafa lagt sig í líma við að upplýsa þetta mál, fara ofan í minnstu smáatriði þess til að aðstoða okkur sem hér sitjum og störfum við að skilja afleiðingar þeirra samninga sem ríkisstjórnin hefur gert. Það er gríðarlega mikilvægt að enn þá séu til öfl á Íslandi sem vinna svona starf. Við eigum að vera þakklát fyrir það og ber þar að sjálfsögðu mjög hátt Indefence-hópinn og þá lögfræðinga og lögmenn sem hafa lagt dag við nótt við að útskýra hina ýmsu lagakróka, t.d. Ragnar H. Hall, Stefán Má og fleiri.

Virðulegi forseti. Fyrir rúmu ári síðan sat hér ríkisstjórn Sjálfstæðisflokksins og Samfylkingarinnar, sem sumir eru farnir að viðurkenna að hafi verið í þeirri ríkisstjórn, og þetta mál var sett í þann farveg með ályktun frá Alþingi 5. desember 2008 að það átti að reyna að leita pólitískra lausna. Hins vegar kom þá mjög skýrt fram að tryggt yrði að tekið yrði tillit til þeirra erfiðu aðstæðna sem hér ríktu og forsendur til lausnar málsins væru byggðar á því og tækju mið af sérstakri og fordæmalausri stöðu landsins. Jafnframt kom fram að ekki væri fallið frá þeim lagarökum sem Ísland hafði sett fram í málinu. Með þetta veganesti fór samninganefndin af stað til að tala við Breta og Hollendinga. Síðan urðu ríkisstjórnarskipti. Fólki var skipt út í samninganefndinni og sú nefnd fékk skilaboð um hvernig haldið skyldi á málinu frá ríkisstjórninni, hinu mikla nýja verkstjórnarvaldi sem átti að bjarga öllu. Niðurstaðan var hræðilegur samningur. Þar var hvergi tekið tillit til hinna sameiginlegu viðmiða eða þeirrar staðreyndar að Íslendingar voru beittir hryðjuverkalögum af Bretum og hvergi tekið tillit til þess að málið allt byggir á því að við lögleiddum gallaða tilskipun frá Evrópusambandinu.

Við skulum aldrei gleyma því að grunninn að þessu öllu saman má rekja til Evrópusambandsins, hins eina sanna Evrópusambands sem Samfylkingin á sér þann draum heitastan að gerast aðili að, sama hvað það kostar. Það er eina lausnin í augum Samfylkingarinnar og þangað skal haldið sama hvað það kostar, jafnvel þótt ekki sé meiri hluti fyrir því í þinginu. Þetta er ekki alveg gallalaust skipulag þarna úti í Brussel og við skulum ekki gleyma þessu, við skulum muna hvernig hlutirnir eru.

Virðulegi forseti. Ég hef haft efasemdir varðandi þetta mál allt frá upphafi er það kom inn í þingið og áður en í rauninni samningum var lokið, ég hafði efasemdir varðandi skyldu okkar til þess að greiða þessar skuldbindingar. Ég hef jafnframt haft uppi miklar efasemdir um að það hafi verið rétt að fara samningaleiðina en allt í lagi, það var búið að ákveða að fara þá leiðina. Ég hafði þessar efasemdir uppi hér í sumar og var þess vegna ánægð að hluta til með að fjárlaganefndin og þeir aðilar sem þar störfuðu og neituðu að afgreiða málið óbreytt í gegnum þingið lögðu mikla vinnu í að búa til hina svokölluðu lagalegu fyrirvara. Það var stór áfangi í því að ná einhvers konar sátt um lögfræðilegu hliðina í þessu máli þótt vissulega væri búið að binda hendur þingsins að miklu leyti með þessum samningi sem undirritaður hafði verið.

Þá komu efnahagslegu fyrirvararnir til, þeir voru sterkir og höfðu gríðarlega þýðingu þar sem þeir girtu fyrir að við þyrftum að greiða það háar greiðslur árlega að þjóðin réði ekki við þær. Þetta var mjög mikilvægt og við skulum ekki gleyma því að þetta var ekki hluti af málinu sem ríkisstjórnin lagði fram í byrjun sumars.

Málið fór héðan úr þinginu og varð að lögum, þessir fyrirvarar voru lögfestir og þannig fór það. Síðan er það önnur saga, frú forseti, sem ég mun nú snúa mér að hvernig var haldið á þessu máli af hálfu þeirra sem falið var að fara yfir það. Ég hefði haldið að af þeirri miklu vinnu sem unnin var á sumarþinginu hefði fólk dregið einhvern lærdóm. Ég hélt að fólk hefði dregið þann lærdóm að það væri mjög mikilvægt að reyna að ná samstöðu, að reyna að fá fólk saman að borðinu til þess að klára þetta mál og að sjálfsögðu að það gengi ekki að koma með mál inn í þingið sem ekki væri þingmeirihluti fyrir, það væri ekki samboðið hagsmunum þjóðarinnar. Það yrði að leita sameiginlegra lausna ef einhvers staðar ætti að víkja frá fyrirvörunum. Þetta var alls ekki málið.

Þegar lögin höfðu orðið að veruleika voru menn að sjálfsögðu spenntir að vita hver viðbrögðin yrðu hjá Bretum og Hollendingum. Þaðan var ekkert að frétta. Ég hafði í einfeldni minni dregið þá ályktun að forustumenn ríkisstjórnarflokkanna mundu hafa samráð við forustumenn stjórnarandstöðuflokkanna um hvernig unnið yrði úr málinu. Þegar spurt var um þetta fengust einfaldlega þau svör að það væri ekkert að frétta og ekkert væri að gerast.

Í fréttum RÚV um miðjan september kom fram að ekkert hefði miðað og engin viðbrögð fengjust frá Bretum og Hollendingum við þeim lögum sem samþykkt höfðu verið á Alþingi. Hins vegar birtist nokkrum klukkutímum seinna athyglisverð bloggfærsla á netinu um drengi sem höfðu séð til aðstoðarmanns fjármálaráðherra þar sem hann ritaði minnisblað til hæstv. fjármálaráðherra um að það væri búið að tala við Breta og Hollendinga fyrir hönd Íslands og að þar hefði komið fram það álit Breta að þeir mundu aldrei sætta sig við að heildarskuldin yrði ekki greidd o.s.frv. Þetta þótti mér mjög athyglisvert og til vitnis um að ekkert hefði lærst af reynslunni. Maður varð hálf sorgmæddur við þessar fréttir. Ég veit ekki alveg hvernig maður á að bregðast við, frú forseti, þegar fólk sem fer með hagsmuni Íslendinga lærir ekki einu sinni einföldustu hluti af svona viðamikilli reynslu eins og við fengum öll hér í sumar. Maður verður ansi hugsi yfir því hvað þar sé að baki og hvernig verkstjórnarvaldinu sé í raun háttað þegar svo er fyrir komið.

Það var sem sagt gengið til samninga að nýju við Breta og Hollendinga. Að mínu mati hefur í rauninni aldrei verið farið fyllilega yfir hvernig sú vinna fór fram. Ég tel að það hafi ekki verið upplýst að fullu og þess vegna hef ég ekki trú á að það hafi verið gert á fullnægjandi hátt. Er einhver hér inni sem trúir því að allra leiða hafi verið leitað til þess að ná því fram að fyrirvarar Alþingis, lög frá Alþingi, mundu standa? Er einhver hér inni sem heldur því fram að því hafi verið fylgt eftir af fullu afli? Þeir þingmenn sem hafa farið út og rætt við kollega sína í Bretlandi, Hollandi og á Norðurlöndunum fullvissa mann um að málstað Íslendinga hafi ekki verið haldið á lofti, að þarlendir aðilar þekki ekki rökin okkar eða lögin sem við samþykktum í sumar, Icesave-lögin. Hvers vegna skyldi það vera? Hvers vegna var ekki lögð öll áhersla á að fylgja eftir lögum Alþingis? Hvernig má það vera, frú forseti? Ég skora hér með á hæstv. utanríkisráðherra, sem ég veit að er hér í hliðarsalnum, til þess að koma og svara þessari spurningu minni. Hvernig má þetta vera? Ef einhver dugur er í mönnum hljóta þeir að geta útskýrt þetta.

Er einhver hér inni fullviss um að sagan eigi eftir að dæma að þannig hafi verið haldið á málefnum Íslendinga í kjölfar lagasetningar Alþingis í sumar að sómi hafi verið að? Ég set stórt spurningarmerki við það og það gera fleiri, þar á meðal fyrrverandi utanríkisráðherra, Ingibjörg Sólrún Gísladóttir. Ég leyfi mér að gagnrýna það, og kannski getur hv. þm. Guðbjartur Hannesson, formaður fjárlaganefndar, útskýrt fyrir mér hvers vegna ekki var orðið við þeirri kröfu fulltrúa Sjálfstæðisflokksins í fjárlaganefnd að kalla þann fyrrverandi ráðherra fyrir nefndina til að útskýra sína hlið á málinu. Ingibjörg Sólrún Gísladóttir var vissulega ráðherra í fyrrverandi ríkisstjórn og átti aðild að því hvernig á málinu var tekið í upphafi en hefur nú gagnrýnt þessa málsmeðferð harðlega. Ég óska einfaldlega eftir því að hv. þm. Guðbjartur Hannesson komi í andsvar við mig og upplýsi mig um hvernig farið var með þetta.

Frú forseti. Ég vil leyfa mér að lesa upp úr nefndaráliti meiri hlutans varðandi hvernig farið var með lögin nr. 96/2009. Hér stendur, með leyfi forseta:

„Forsenda ríkisábyrgðarinnar var sú samkvæmt lögunum að kynna varð breskum og hollenskum stjórnvöldum fyrirvarana og þau urðu að fallast á þá“.

Síðan segir, með leyfi forseta:

„Fljótlega kom í ljós að hollensk og bresk stjórnvöld voru ekki reiðubúin til að fallast á alla fyrirvara Alþingis óbreytta.“ — Voru ekki reiðubúin. — „Að loknum viðræðum aðila lánasamninganna varð niðurstaðan sú að gera viðaukasamninga og með þeim hætti samrýma að mestu leyti efni lánasamninganna“.

Þarna sést að strax var byrjað að gefa afslátt af þeim lögum sem Alþingi samþykkti í sumar, sem alþingismenn lögðu nótt við dag við að koma sér saman um hvernig skyldu líta út. Á þessum tímapunkti hafði hvergi komið fram opinberlega skrifleg yfirlýsing frá Bretum og Hollendingum um að þeir gætu ekki staðfest eða gengið að því að íslensk lög giltu. Þetta er mjög athyglisvert.

Jafnframt kemur fram í meirihlutaálitinu, með leyfi frú forseta:

„Það er álit meiri hluta fjárlaganefndar að meginefni fyrirvaranna hafi náð fram að ganga og rétt sé að ljúka málinu með þessum hætti. Fallist var á kröfu viðsemjenda íslenska ríkisins um að ríkisábyrgð á skuldbindingum tryggingarsjóðsins væri óskilyrt.“

Þetta er gríðarlega athyglisvert, frú forseti. Það er álit meiri hlutans samkvæmt þessu að meginefni fyrirvaranna hafi orðið að veruleika og haldi sér í þessu frumvarpi sem hér var lagt fram. Ekki eru allir á sama máli og ber þar helst að nefna þá virðulegu lögmenn Lárus L. Blöndal og Stefán Má Stefánsson. Áður en ég fer í þá gagnrýni sem fram hefur komið á nýja frumvarpið er rétt að rifja aðeins upp þá fyrirvara sem höfðu mesta þýðingu til að takmarka ábyrgð ríkisins samkvæmt lögunum.

Í fyrsta lagi skyldi gildistími ábyrgðarinnar vera tímabundinn eða til 5. júní 2024 og eftir það félli hún niður. Í öðru lagi voru sett efnahagsleg viðmið sem takmörkuðu ábyrgð ríkisins og þetta átti að tryggja að greiðslur yrðu ávallt innan greiðsluþols íslenska ríkisins. Þá er settur fyrirvari um að Íslendingar hefðu ekki fallið frá þeim rétti sínum að fá úr því skorið hvort okkur bæri skylda til þess að greiða þessar kröfur. Ábyrgðin skyldi miðast við að farið yrði að íslenskum lögum við uppgjör og úthlutun eigna úr Landsbanka Íslands. Þetta eru þeir fyrirvarar sem ræddir voru á Alþingi í sumar og voru í rauninni leið þingsins til þess að leiðrétta eins og hægt var þá samninga sem ríkisstjórnin kom með hingað heim. Það var málið hjá þeim þingmönnum sem komu að smíði þessara fyrirvara.

Þeir hv. lögmenn Lárus L. Blöndal og Stefán Már Stefánsson hafa farið yfir þetta nýja frumvarp sem gerir ráð fyrir breytingu á þeim lögum sem við settum í sumar, fyrirvaralögunum. Þar er farið í grófum dráttum yfir hvernig þessum veigamestu fyrirvörum er breytt. Ég ætla að leyfa mér að fara yfir í stuttu máli hver þeirra niðurstaða er, með leyfi forseta:

„1. Tímabinding ábyrgðarinnar er felld út. Ríkisábyrgðin er sem sagt ótímabundin. Margar kynslóðir Íslendinga gætu því orðið ábyrgar fyrir Icesave-skuldbindingunum.

2. Efnahagslegu viðmiðunum er breytt verulega. Þannig skal ávallt greiða vexti óháð því hvort hagvaxtaraukning verður á Íslandi eða ekki. Fjárhæð vaxtanna hleypur á mörgum tugum milljarða kr. á ári a.m.k. fyrstu árin. Hafi meirihluti fjárlaganefndar og þeirra ráðgjafar reiknað rétt þegar þessi fyrirvari um greiðsluhámark var settur inn í lögin um ríkisábyrgðina er ljóst að þessar fjárhæðir eru líklega umfram það sem þjóðarbúið getur borið. Það þýðir að þjóðin getur væntanlega ekki staðið undir þessari ríkisábyrgð.“

Þetta er athyglisvert, frú forseti. Þá halda þeir áfram:

„3. Íslenska ríkið getur ekki tryggt að ríkisábyrgðin falli niður jafnvel þó þar til bær úrskurðaraðili kæmist að þeirri niðurstöðu að ríkið bæri ekki ábyrgð á innstæðum. Samkvæmt frumvarpinu skal ríkisábyrgð vera bundin þeim fyrirvara að viðræður fari fram milli Íslands og viðsemjenda þess um áhrif slíkrar niðurstöðu á lánasamningana og skuldbindingar ríkisins. Bretar og Hollendingar eru auðvitað ekki bundnir af þessum ákvæðum og samkvæmt lánasamningunum er ábyrgð íslenska ríkisins skilyrðislaus eins og áður sagði. Íslenska ríkið á það því alfarið undir breskum og hollenskum stjórnvöldum hvert framhald málsins verður. Niðurstaða dómstóla breytir því engu um Icesave-ábyrgðina verði þetta frumvarp samþykkt nema Hollendingar og Bretar samþykki það.“

Hvernig getur nokkur íslenskur stjórnmálamaður samþykkt ákvæði eins og þetta? Það skil ég einfaldlega ekki. Mér þykir þetta vera u.þ.b. það mest niðurlægjandi sem ég hef nokkurn tímann séð lagt fram sem frumvarpstillaga.

Frú forseti. Ég held áfram að vitna í yfirferð þeirra félaga um breytingarnar á fyrirvörunum.

„4. Samkvæmt frumvarpinu er ekki lengur gert ráð fyrir að ríkisábyrgðin takmarkist við að úthlutun og uppgjör á eignum Landsbankans fari fram samkvæmt íslenskum lögum eins og þau verða skýrð af dómstólum landsins. Látið er duga að setja inn í viðaukasamninginn við Breta að þeim sé kunnugt um að Tryggingarsjóður innstæðueigenda kunni að leita úrskurðar um hvort hans kröfur gangi framar öðrum kröfum vegna sömu innlána. Eins og áður segir eru skuldbindingar íslenska ríkisins hins vegar skilyrðislausar samkvæmt lánasamningnum og við túlkun hans gilda bresk lög. Af þessum sökum verður ekki séð að neitt lögfræðilegt hald sé í þessu ákvæði viðaukasamningsins við Breta að þessu leyti og fyrirvarinn því orðinn marklaus gagnvart þeim.“

Þetta segir í rauninni allt sem segja þarf. Fyrirvararnir eru að engu orðnir og öll sú vinna sem fram fór í þinginu í sumar því orðin að engu. Búið er að henda því út um gluggann og komið fram nýtt frumvarp sem kollvarpar algjörlega þeim lögum sem Alþingi samþykkti í sumar.

Ég vil gagnrýna annað atriði í þessari málsmeðferð sem málið fékk í fjárlaganefnd. Fjárlaganefndin hafði fyrir því að senda erindi til efnahags- og skattanefndar og óska eftir því að nefndin færi yfir málið og þá væntanlega koma með sína afstöðu gagnvart því hvaða efnahagslegu afleiðingar lögin eða frumvarpið nýja mundi hafa. Ein þingnefnd óskaði eftir vinnu annarrar þingnefndar. Hvernig var sú niðurstaða? Jú, efnahags- og skattanefnd lagði í nokkra vinnu og flýtti sér að því en heilum fjórum minnihlutaálitum var skilað að því er mér skilst. Hvað gerði sjálf fjárlaganefndin við þessi umbeðnu álit, frú forseti? Það er nú mest lítið, skilst mér á þeim sem sitja í fjárlaganefnd, en umfjöllun um niðurstöðu efnahags- og skattanefndar í áliti meiri hlutans um þetta mál er engin. Það er nú öll meðferðin. Mér skilst, og ég spurði hv. þm. Þór Saari að því áðan þar sem hann á sæti í fjárlaganefnd, að það hafi ekki verið rætt neitt efnislega um þetta frumvarp í nefndinni. Það voru einfaldlega tekin þessi skylduviðtöl sem búið var að biðja um og málið síðan keyrt út úr nefndinni.

Þetta eru mjög athyglisverð vinnubrögð, sérstaklega í ljósi þess að núverandi ríkisstjórnarflokkar hafa talað digurbarkalega um það, skipti eftir skipti, æ ofan í æ, að hér skuli viðhöfð góð stjórnsýsla, gagnsæ vinnubrögð, nýjar áherslur sem fela í sér opnara vinnulag o.s.frv. Ég ítreka að þessi ummæli eru öll bara í orði en ekki á borði, enn einu sinni neyðist ég til að segja það hér í þessum stól.

Frú forseti. Ég vil fá að lesa jafnframt, þar sem ekki var fjallað um það í fjárlaganefndinni, úr niðurstöðu álits frá 4. minni hluta efnahags- og skattanefndar. Þar kemur fram, með leyfi frú forseta, í kafla 3.2 sem heitir „Óendanleg ríkisábyrgð“:

„Í efnahagslegu fyrirvörunum er gert ráð fyrir að ef hagvaxtarreglan leiðir af einhverjum orsökum til þess að eitthvað stendur eftir af höfuðstóli árið 2024 verða lánin framlengd allt þar til þau hafa verið greidd upp. Vísbendingin sem er falin í því að lán hafi verið framlengd eftir 2024 er að hagvaxtarforsendur hafi brostið. Ef svo fer verður íslenskt efnahagslíf fast í vítahring stöðnunar og versnandi lífskjara og ekki er tekið mið af Brussel-viðmiðunum. Óásættanlegt er að setja enn auknar byrðar á Íslendinga við slíkar aðstæður. Á þessu atriði tók efnahagslegi fyrirvarinn sem aftengdur var.“

Loks benda þeir í 4. minni hluta nefndarinnar á, með leyfi frú forseta:

„Að lokum hlýtur 4. minni hluti efnahags- og skattanefndar að benda á lagalega óvissu um hvort yfirleitt beri að greiða umfram getu Tryggingarsjóðs innlánseigenda og fjárfesta. Fjórði minni hluti setur því fyrirvara við lagalega skyldu Íslendinga til að greiða innlánstryggingar umfram þær eignir sem Tryggingarsjóður innstæðueigenda og fjárfesta býr yfir.“

Já, svona lítur þetta út, frú forseti. Ég hefði nú talið að þetta væri það efnismikið og mikið álitaefni sem fram kemur í þessu minnihlutaáliti efnahags- og skattanefndar að það bæri a.m.k. að tæpa á þessu í vinnu fjárlaganefndar, sérstaklega þar sem fjárlaganefnd bað efnahags- og skattanefnd um að fara sérstaklega yfir þetta mál og þessa hlið málsins. Það virðist, eins og ég talaði um áðan, einungis vera einhvers konar yfirlýsing í orði sem gefur síðan ekkert af sér á borði.

Frú forseti. Ég vil jafnframt örstutt vekja athygli á þeim vangaveltum sem Sigurður Líndal, minn gamli prófessor, lagði fram í grein í Fréttablaðinu þann 19. nóvember 2009. Þar veltir hann því fyrir sér hvort fullveldi landsins sé sett í hættu með því frumvarpi sem hér er rætt um í dag. Í greininni fjallar Sigurður Líndal um þetta álitaefni og telur að með frumvarpinu sé verulegur vafi á því að þetta sé í rauninni í samræmi við íslenskan stjórnskipunarrétt. Það er mjög mikilvægt, frú forseti, að þetta atriði sé rætt. Þegar þungavigtarmenn setja fram athugasemdir eins og þessa í máli sem varðar gríðarlega efnahagslega hagsmuni þjóðarinnar, skuldastöðu þjóðarbúsins og hvaða skuldir komandi kynslóðir koma til með að þurfa að standa undir, er ekki til mikils mælst að því sé veitt smá athygli og um það sé fjallað í fjárlaganefnd og alla vega sé reynt að komast til botns í því hvort hér séu einhver atriði sem vert er að skoða. Svo virðist ekki vera og er það miður.

Virðulegi forseti. Ég fjallaði áðan um mikilvægi þess ef Brussel-viðmiðin hefðu verið höfð að leiðarljósi þegar farið var í samningaviðræðurnar í upphafi og hve gríðarlega mikilvægt það var að fá þau fram og fá þau niður á blað. Vissulega var þá gengið út frá því að þau yrðu höfð sem leiðarljós í þeim samningaviðræðum sem í hönd fóru. Svo virðist ekki vera. Þau virðast ekki vera í rauninni höfð sem viðmið. Vissulega er tæpt á því í texta í viðaukasamningunum að verið sé að fara eftir þessum viðmiðum en efnislega séð er ekki hægt að finna því stað. Þetta er sýndarákvæði og það vekur vissulega furðu hvernig fjárlaganefnd afgreiðir þetta. Ég vil aðeins fjalla um hvernig meiri hluti fjárlaganefndar skautar yfir þessi sjónarmið. Í áliti meiri hlutans segir, frú forseti:

„Gagnrýnt var að Brussel-viðmiðin hafi ekki verið höfð nægilega til hliðsjónar við samningsgerðina. Á þessu var tekið af hálfu samningsaðila í viðaukasamningunum. Samkvæmt þeim getur íslenska ríkið takmarkað endurgreiðslur afborgana frá og með 5. júní 2016 ef hagvaxtaraukning í landinu, talið í pundum eða evrum, verður minni en gert er ráð fyrir. Íslenska ríkið getur einnig framlengt lánasamningana einhliða og þannig dregið úr heildargreiðslubyrði hvers árs. Þetta var talið tryggja möguleika íslenska ríkisins, ásamt sjö ára afborgunarleysistímabili, til að endurreisa fjármála- og efnahagskerfi sitt.“

Ja, hérna. Ég verð nú einfaldlega að lýsa því yfir að þetta þykir mér ekki mjög trúverðugur málflutningur. Það er nú einfaldlega svo að Brussel-viðmiðin voru gríðarlega veigamikil og ég ætla að leyfa mér að fara aðeins yfir hver meginatriðin í þeim voru. Samkvæmt þeim átti að taka mið af hinni sérstöku og erfiðu stöðu landsins. Ég get ekki séð að það hafi verið gert, hvorki í fyrra máli ríkisstjórnarinnar sem lagt er fram af ríkisstjórninni né í því síðara sem við fjöllum um hér, þrátt fyrir þennan rökstuðning meiri hlutans í sínu nefndaráliti. Ég tel að það hefði þurft að fara mun betur í þessi atriði og hafa þau sterkar í huga þegar farið var í þessar samningaviðræður. Ég tel einfaldlega að ekki sé gætt að því að uppfylla Brussel-viðmiðin. Það er mjög sorglegt að ekki hafi verið gætt að því vegna þess að þau eru í rauninni sterkasta vopnið sem við höfum í hendi í allri þessari málsmeðferð frá hruni.

Það þýðir þó ekki að láta deigan síga. Við erum á þessum stað og stund, hér er málið statt. Við í þinginu erum með það í okkar meðferð. Þessu máli er ekki lokið og ég óska eftir því að hv. þingmenn láti ekki deigan síga heldur setjist yfir þetta mál enn og aftur af fullri alvöru og skoði hvort þeir telji virkilega að þetta sé rétta leiðin. Er einhver sannfæring á bak við þann málflutning sem þingmenn stjórnarandstöðuflokkanna hafa uppi þegar rætt er um þetta mál? Það er reyndar erfitt að greina það þar sem þeir blanda sér ekki í umræðuna en gæti verið hægt að skýra þetta afskiptaleysi hv. þingmanna ríkisstjórnarflokkanna með því að þeir hafi einfaldlega ekki sannfæringu í þessu máli? Getur verið að hv. þingmenn ríkisstjórnarflokkanna ætli sér einfaldlega að láta sér þessa niðurstöðu lynda vegna þess að hér hangi ríkisstjórnarsamstarfið undir? Ég spyr, frú forseti. Ég átta mig ekki alveg á því vegna þess að ég hef ekki heyrt í það mörgum stjórnarþingmönnum í þessari umræðu í dag. Reyndar kom hæstv. forsætisráðherra hingað upp í eina mínútu og talaði um fundarstjórn forseta en fór reyndar ekki mikið efnislega í þetta mál.

Frú forseti. Ég legg til að við skoðum hugmyndir um að geyma þetta mál aðeins. Nú í sumar voru mikil læti í mönnum varðandi að það væri brýnt að klára þetta vegna þess að hin og þessi dagsetningin væri undir, þá mundi allt breytast og eftir þá dagsetningu yrði ekki aftur snúið. Við værum búin að fórna íslenskum hagsmunum ef við kláruðum ekki þetta mál í þinginu fyrir ákveðna dagsetningu. Síðan færðist sú dagsetning ávallt til. Ég skildi þetta þannig að nú væri komin ný dagsetning en svo virðist nú ekki vera og þá sé ég ekki að nokkur asi sé á þessu máli. Ég tel að við eigum að taka hugmyndir sem fram hafa komið frá hv. þm. Birgittu Jónsdóttur um að búa til þverpólitískan hóp þingmanna til þess að fara yfir þetta mál og fara yfir hvernig hægt er að kynna okkar málstað erlendis. Það hefur aldrei verið gert. Það er gríðarlega mikilvægt í ljósi orða minna hér í upphafi að mynda samstöðu um hvernig við ætlum að klára þetta mál í þinginu og fara einfaldlega í þessa vinnu.

Hv. þm. Pétur H. Blöndal talaði fyrir svipaðri tillögu í sumar. Eins og allir vita hefur hann lagt mikla vinnu í þetta mál. Hann hefur lagt mjög mikla vinnu á sig, að öðrum þingmönnum ólöstuðum, við að setja sig inn í smæstu afkima málsins og lagði fram þá tillögu í sumar að við mundum einfaldlega fresta þingi, senda þessa 63 þjóðkjörnu fulltrúa sem hér sitja út í heim til að tala okkar máli. Ég tel að það sé það sem þurfi að gera. Ég tel ekki að við eigum að gefast upp og láta yfir okkur ganga þann vilja Breta og Hollendinga að breyta lögum Alþingis sem við erum nýbúin að samþykkja og leggja á okkur mikla vinnu við að ná samstöðu um. Ég tel þetta einfaldlega ekki góð vinnubrögð. Ég tel það ekki samboðið virðingu Alþingis og ríkisstjórn í fullvalda ríki að leggja málið upp með þessum hætti.

Eins og ég sagði áðan er ég ekki sannfærð um að lögunum sem við fórum með og samþykktum í sumar hafi verið fylgt nægilega fast eftir. Ég hef ekki fengið fullnægjandi skýringar að mínu mati á því hvernig þeirri vinnu var háttað og ég hef ekki fundið fyrir sannfæringu þingmanna ríkisstjórnarflokkanna fyrir því að svo hafi verið.

Frú forseti. Að lokum vil ég skauta yfir þetta mál í stórum dráttum. Bretar og Hollendingar hafa náð að knýja fram þessar grundvallarbreytingar á þeim lögum sem Alþingi samþykkti eftir mikla vinnu. Indefence-hópurinn hefur tekið þetta ágætlega saman. Með þessum viðaukasamningum er fyrirvörum Alþingis nánast að öllu leyti hent út um gluggann. Ábyrgð ríkisins er aftur orðin hluti af skilyrðislausum lánasamningum sem geta orðið til þess að hér ríki óendanleg ríkisábyrgð eins og 4. minni hluti efnahags- og skattanefndar komst að orði. Alvarlegast er að þessir samningar eru ekki í neinu samræmi við Brussel-viðmiðin. Það er gríðarlega alvarlegt mál sem ég tel að við þurfum að ræða miklu betur. Ég vona svo sannarlega að hv. þm. Guðbjartur Hannesson komi og útskýri þessa hluti fyrir mér. Ég sé að hann er staddur í salnum og hefur samviskusamlega hlustað á alla ræðu mína líkt og ég hafði óskað eftir og ég þakka honum kærlega fyrir það.

Frú forseti. Ég tel að þessir samningar séu ekki góðir fyrir íslensku þjóðina og þeir stríði að mörgu leyti gegn framtíðarhagsmunum hennar og komandi kynslóða. Ég tel að þessir samningar feli í sér afleik af hálfu stjórnvalda. Ég tel að betur hefði mátt gera. Það hefði verið gert hefðu Brussel-viðmiðin verið látin njóta sín og úr því sem komið var í sumar hefði verið haldið við þá fyrirvara sem Alþingi setti og við settum sem lög í sumar eftir gríðarlega mikla vinnu. Flestallir sem hingað komu, sama úr hvaða flokki þeir voru, í síðustu umræðu og atkvæðagreiðslu um þetta mál í sumar vegsömuðu þá vinnu og samstöðu og hvernig vinnulagið hefði verið sem skapaðist í þinginu. Þess vegna er hálffurðulegt að nokkrum vikum seinna sé því öllu kastað fyrir róða. Það vekur enn og aftur spurningar um hvort það sé virkilega þannig að þegar tekin eru upp að mörgu leyti óvenjuleg og ný vinnubrögð séu þau einfaldlega ekki þóknanleg. Þetta er kannski sú ályktun sem dregin verður af þessu máli öllu saman. Lærdómurinn sem ég hélt að yrði dreginn af vinnu þingsins í sumar hefur alla vega ekki skilað sér, því sér í það minnsta ekki stað í því frumvarpi sem við ræðum í dag.