138. löggjafarþing — 30. fundur,  24. nóv. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

76. mál
[23:49]
Horfa

Margrét Tryggvadóttir (Hr) (andsvar):

Frú forseti. Ég vil þakka hv. þingmanni fyrir mjög góða ræðu þar sem hún fór m.a. mjög vel yfir fyrirvarana, bæði þá gömlu og nýju. Ég er henni hjartanlega sammála um að fyrirvararnir eru verulega laskaðir og sumir hverjir hreinlega ónýtir, þótt því hafi verið haldið fram að þessir nýju fyrirvarar séu betri en þeir sem voru samþykktir í sumar.

Nú langar mig að spyrja hv. þingmann hvort hún hafi hitt einhverja manneskju einhvers staðar utan þessa þings sem trúir því að fyrirvararnir séu betri nú en í núgildandi lögum sem samþykkt voru í ágúst.

Ég hef verulegar áhyggjur af því að þetta brölt veiki þingræðið, það að bera nýsamþykkt lög undir Breta og Hollendinga, gömlu nýlenduþjóðirnar, tel ég að veiki þingræðið verulega. Mig langar að spyrja hv. þingmann, af því ég veit að hún þekkir lögin betur en ég, hvort hún viti til þess að einhver fordæmi séu fyrir þess háttar lagasetningu.