138. löggjafarþing — 30. fundur,  24. nóv. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

76. mál
[23:50]
Horfa

Unnur Brá Konráðsdóttir (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég vil þakka hv. þm. Margréti Tryggvadóttur fyrir að koma í andsvar við ræðu minni. Ég sakna þess þó mjög að sjá ekki þá félaga sem ég hafði óskað eftir að kæmu og veittu mér ýmsar skýringar, formann fjárlaganefndar hv. þm. Guðbjart Hannesson og eins hæstv. utanríkisráðherra Össur Skarphéðinsson.

Varðandi spurningar hv. þm. Margrétar Tryggvadóttur hef ég vissulega ekki hitt neinn utan þessa þings sem hefur sagt mér að honum þyki nýja frumvarpið betra en það sem varð á endanum að lögum í sumar. Ég get varla sagt að ég hafi hitt marga innan þings sem hafa sannfæringu fyrir því að þetta frumvarp sem hér er rætt sé betra og innihaldi þá fyrirvara sem þingið samþykkti í sumar. Ég er algjörlega ósammála því og ég hef hitt mjög fáa sem hafa sannfæringu fyrir því að svo sé. Þetta er svolítið dapurlegt að mínu mati vegna þess að allir voru hálfklökkir hér í sumar þegar þessi vinnubrögð sem alþjóð þekkir varðandi þessa samstöðu áttu sér stað.

Varðandi lögfræðilegu hliðina á því að fullvalda þjóð og Alþingi sem samþykkti lög láti sér það lynda að tvær stórþjóðir komi og segi: Nei takk, við viljum ekki svona lagasetningu, komið með eitthvað betra — ég hef hvergi séð þetta. Það má vel vera að þetta hafi tíðkast hjá þessum nýlenduþjóðum gagnvart nýlendum þeirra, ég þekki ekki sögu þeirra ítarlega. Ég tel þetta alla vega ekki bjóðandi og ekki vera vinnubrögð sem eigi að viðhafa og alls ekki í einu elsta lýðræðisríki í heimi.