138. löggjafarþing — 31. fundur,  25. nóv. 2009.

störf þingsins.

[13:32]
Horfa

Birkir Jón Jónsson (F):

Frú forseti. Málefni Reykjavíkurflugvallar hafa verið okkur mörgum sem sitjum hér á þingi nokkurt umhugsunarefni að undanförnu. Ástæðan er sú að Samfylkingin, sem er leiðandi afl í ríkisstjórninni, virðist tala tveimur tungum í þeim efnum eins og svo mörgum öðrum. (Gripið fram í.) Það opinberaðist í umræðum á þinginu um daginn að hv. þm. Steinunn Valdís Óskarsdóttir talaði fyrir því að Reykjavíkurflugvöllur ætti ekki að vera í Vatnsmýrinni til engri tíma litið, þvert á það sem núverandi samgönguráðherra er að vinna að. Framsóknarmenn í Reykjavík hafa talað fyrir því að Reykjavíkurflugvöllur eigi að vera á því svæði sem hann er í dag þótt ýmsar útfærslur komi til greina í þeim efnum. En það er bagalegt ef Samfylkingin hefur ekki skýra stefnu í þessum efnum og vísa ég þá til þess að hv. þm. Steinunn Valdís Óskarsdóttir er í samgöngunefnd þingsins. Það er því mikilvægt að heyra hver stefna Samfylkingarinnar er í þessum efnum. Við framsóknarmenn höfum ætíð talað máli flugvallarins enda er hann gríðarlega mikilvægur fyrir landsbyggðina og ekki síður fyrir höfuðborgarsvæðið og Reykjavík. Hann skapar mörg hundruð störf í þessari borg og er mikilvæg tenging milli Reykjavíkur og landsbyggðarinnar því að ef Reykjavík á að vera höfuðborg landsins alls þurfa að vera greiðar samgöngur til og frá þessari borg.

Það er eðlilegt í ljósi þeirra umræðna sem verið hafa í samfélaginu að undanförnu og nú þegar samgönguráðherra vinnur að tillögum um framtíðarstaðsetningu flugvallarins í Reykjavík, að heyra hvort Samfylkingin gengur í takt í þessum efnum. Það gerum við framsóknarmenn og við höfum ályktað mjög eindregið um þessi efni. Það er mikilvægt á þessum tímum og sérstaklega í ljósi hrunsins og alls (Gripið fram í.) að stjórnarflokkarnir, og þá sérstaklega Samfylkingin, hafi mótaða afstöðu í sem flestum málum. En mér heyrist því miður … (Gripið fram í.) Ég heyri að hæstv. utanríkisráðherra grípur fram í og segist hafa skýra skoðun á því máli. Ég vona að hann geri þá grein fyrir henni hér.