138. löggjafarþing — 31. fundur,  25. nóv. 2009.

störf þingsins.

[13:39]
Horfa

Lilja Mósesdóttir (Vg):

Frú forseti. Ég vil byrja á að þakka hv. þm. Guðlaugi Þór Þórðarsyni fyrir að veita okkur stjórnarliðum og framkvæmdarvaldinu aðhald, sem er mjög nauðsynlegt á tímum endurreisnar eins og í dag. Hvað varðar hv. viðskiptanefnd hefur hún reynt að sinna eftirlitshlutverki sínu og kallað á fund nefndarinnar aðila úr bankakerfinu og líka frá eftirlitsstofnunum til að ræða verklagsreglur bankanna.

Þær upplýsingar sem komið hafa fram á þessum fundum benda til þess að ekki sé farið eftir samræmdum reglum og lögum. Því hef ég sem formaður viðskiptanefndar boðað hæstv. efnahags- og viðskiptaráðherra á fund nefndarinnar á morgun m.a. til að gefa nefndarmönnum tækifæri á að gefa munnlega skýrslu um stöðu mála og spyrja jafnframt hvernig verið sé að tryggja að verklagsreglur bankanna séu í samræmi við lög, að eftirlit með framkvæmd verklagsreglna sé virt, að jafnræðis sé gætt milli banka og milli ólíkra viðskiptavina. Viðskiptalegar, skynsamlegar ákvarðanir bankanna, eins og það heitir á máli Samkeppniseftirlitsins, eru ekki alltaf í samræmi við hagsmuni almennings og því er mjög brýnt að settar verði leikreglur um fjárhagslega endurskipulagningu bankanna. Það er von mín að við fáum skýr svör á morgun frá hæstv. efnahags- og viðskiptaráðherra um það hvernig hann tryggi hagsmuni almennings í þessari endurskipulagningu.