138. löggjafarþing — 31. fundur,  25. nóv. 2009.

Reykjavíkurflugvöllur -- verklagsreglur bankanna -- Suðvesturlína o.fl.

[13:45]
Horfa

Gunnar Bragi Sveinsson (F):

Virðulegi forseti. Ég kveð mér hljóðs vegna greinar eða viðtals sem var í Morgunblaðinu í gær við helsta samningamann Íslands varðandi Icesave-samkomulagið þar sem sá ágæti maður, aðstoðarmaður fjármálaráðherra, gerir lítið úr varnaðarorðum eins helsta sérfræðings heimsins í peningamálum, Daniels Gros. Í fyrsta lagi reynir aðstoðarmaður ráðherra að kenna þessum sérfræðingi einhverjar reikningskúnstir og í öðru lagi fer hann hreinlega rangt með staðhæfingar varðandi samninginn um Evrópska efnahagssvæðið. Aðstoðarmaður fjármálaráðherra kýs að snúa út úr umræðunni um jafnræðisregluna með því að vísa í að hún snúist eingöngu um samkeppnismál, eins og hann orðaði það, þ.e., með leyfi forseta, „að [hún] gildi fyrst og fremst varðandi samkeppnisstöðu.“

Í samningnum um Evrópska efnahagssvæðið er töluvert komið inn á jafnræðisregluna og ljóst er að hún er almenn í þessum samningi. Ég vil, með leyfi forseta, fá að lesa upp í viðauka I þar sem er lýsing á því hvað þessi ágæti samningur á að þýða. Þar segir m.a.:

„… stefnt [er] að því […] að koma sér saman um jafnræði gagnvart einstaklingum og aðilum í atvinnurekstri að því er varðar fjórþætta frelsið og samkeppnisskilyrði …“

Það er því verið að ræða um svo kallað fjórfrelsi, einnig þegar talað er um jafnræðisregluna en ekki eingöngu samkeppnisskilyrðin sem þessi ágæti embættismaður og aðstoðarmaður fjármálaráðherra kýs að vitna í og snúa út úr. Hann ætti frekar að fara og vinna heimavinnuna sína, sem og aðrir í ráðuneytinu, og komast til botns í því hvað verið er að gera við þessa þjóð með þessum samningi.

Ég vil vitna í annað, frú forseti, en það eru orð Eiríks Bergmanns sem er forstöðumaður Evrópufræðasetursins á Bifröst. Hann segir, með leyfi frú forseta:

„Og satt að segja hafa mér fundist íslenskir stjórnmálamenn frekar hafa áhuga á því að slá pólitískar keilur í þessu máli heima fyrir (Forseti hringir.) heldur en gæta hagsmuna Íslendinga á erlendum vettvangi.“ (Gripið fram í.)