138. löggjafarþing — 31. fundur,  25. nóv. 2009.

Reykjavíkurflugvöllur -- verklagsreglur bankanna -- Suðvesturlína o.fl.

[13:54]
Horfa

Birkir Jón Jónsson (F):

Frú forseti. Ég þakka hv. þm. Steinunni Valdísi Óskarsdóttur fyrir þau óskýru svör sem ég fékk áðan um stefnu Samfylkingarinnar í svo mikilvægu máli sem innanlandsflugið er, bæði fyrir höfuðborgina og landsbyggðina. Hv. þingmaður reyndi af reyndar mjög veikum mætti að verja stefnuleysi Samfylkingarinnar í þessu mikla máli með því að tala mest um stefnu annarra flokka og fór að rifja upp stefnu einstakra borgarfulltrúa Sjálfstæðisflokksins í þeim efnum. Kallaði hv. þm. Guðlaugur Þór Þórðarson þá ákaft fram í fyrir hv. þingmanni á meðan á þeirri upprifjun stóð.

Þegar talað er um stefnu Framsóknarflokksins í þeim efnum talaði flokkurinn fyrir því fyrir síðustu kosningar að flugvöllurinn ætti að vera á því svæði sem hann er í dag og ég veit að hv. þingmaður kannast við það kosningaloforð framsóknarmanna í þeim efnum. Jafnframt hefur flokksþing Framsóknarflokksins ítrekað ályktað með því að flugvöllurinn verði á því svæði sem hann er. Stefna Framsóknarflokksins er því alveg kristaltær í þessum efnum þó að hv. þingmaður reyni að kasta einhverri rýrð á það merka málefnastarf sem unnið hefur verið innan Framsóknarflokksins á undangengnum árum í þessu mikilvæga máli. (Gripið fram í.) Því miður talar Samfylkingin út og suður í þessu máli sem og mörgum öðrum og þó fer hún með málaflokkinn í ríkisstjórn Íslands. Auðvitað er það áhyggjuefni en það endurspeglar kannski stöðu mála í svo mörgu öðru sem blasir við okkur þar sem Samfylkingin gengur ekki í takt, hvað þá stjórnarflokkarnir. Ég held að það sé ekki hægt að ætlast til þess. En ég vonast til að Samfylkingin fari að taka sig á í málefnastarfinu og geri kannski skoðanakönnun meðal þjóðarinnar. Þá er ég alveg viss um að hún mundi komast að hinni einu sönnu niðurstöðu (Gripið fram í.) um það hver stefna Samfylkingarinnar ætti að vera í málefnum Reykjavíkurflugvallar. (Gripið fram í.)