138. löggjafarþing — 31. fundur,  25. nóv. 2009.

Reykjavíkurflugvöllur -- verklagsreglur bankanna -- Suðvesturlína o.fl.

[13:59]
Horfa

Guðlaugur Þór Þórðarson (S):

Virðulegi forseti. Hv. þm. Jón Gunnarsson staðfesti að það eru skiptar skoðanir um skipulagsmál í Reykjavíkurborg meðal þingmanna Sjálfstæðisflokksins og þó svo ég haldi að það verði kannski einhvern tíma ágætt að fara yfir hvernig skipuleggja eigi byggð í borginni er nú þegar heil borgarstjórn í því. En það er hins vegar ekki samhljómur á milli okkar hvað hin ýmsu mál varðar, það er deginum ljósara, ég ætla ekki að eyða tíma mínum í að fara yfir það.

Hins vegar vil ég nota tækifærið og þakka hv. þm. Lilju Mósesdóttur fyrir viðbrögð hennar áðan og sömuleiðis hlý orð í minn garð. Ég tel að ég og hv. þm. Lilja Mósesdóttir séum sammála um markmiðið hvað þetta varðar. Hv. þingmaður vísaði til þess að á þessum fundi hefðu komið fram mjög alvarlegar upplýsingar. Ég fagna því að hæstv. ráðherra sé kallaður fyrir fund nefndarinnar þar sem hann gerir grein fyrir sínum málum því að það er augljóst að þar er pottur brotinn og menn hafa ekki staðið sig sem skyldi. Ég held að allir landsmenn séu á þeirri skoðun að sjá eigi til þess að hér séu samræmdar reglur, gagnsæi tryggt, sem og eftirlit.

Nú er hins vegar mikið búið að tala um vinnubrögð á þinginu og við höfum samkvæmt 26. gr. þingskapa heimild og skyldu til þess sem eftirlitsaðili að leggja skýrslu fyrir þingið. Það tekur ekki langan tíma og þar getum við komið með tillögur til úrbóta. Ég hvet hv. þingmann og stjórnarliða í hv. viðskiptanefnd að hugsa þetta vel því að ég get ekki fundið neitt mál sem er stærra og sem er mikilvægara að taka upp á vettvangi (Forseti hringir.) þingsins en þetta stóra mál í endurreisninni okkar.