138. löggjafarþing — 31. fundur,  25. nóv. 2009.

stefna ríkisstjórnarinnar um ríkislaun.

159. mál
[14:02]
Horfa

Fyrirspyrjandi (Guðlaugur Þór Þórðarson) (S):

Virðulegi forseti. Ég ætlaði að taka hér upp mál sem er mjög stórt þótt það láti lítið yfir sér, sem snýr að einu því stefnumiði ríkisstjórnarinnar sem miðar að því að engin ríkislaun, eins og það er kallað, eigi að vera hærri en laun forsætisráðherra. Við munum hvernig þetta var afgreitt varðandi forstöðumenn stofnana fyrir nokkrum vikum síðan. Það var mjög handahófskennt og þrátt fyrir ágæta málefnalega umræðu í þinginu var ekki tekið neitt tillit til þeirra málefnalegu athugasemda sem voru til staðar. Það virtist vera að markmiðið væri að keyra eitthvað í gegn sem menn hefðu ekki hugsað til enda, a.m.k. ekki hvað varðar brot af þeim sem vinna hjá ríkinu.

Ég verð að viðurkenna að ég fékk ekki skýrar upplýsingar um það þá hvað í rauninni felst í þessu, þ.e. þegar menn eru komnir með laun forsætisráðherra. Eru þetta hlunnindin sem eru í þeim launum, eða eru þetta bara launin ein og sér? Eins og menn vita eru mjög mikil hlunnindi sem tengjast hæstv. forsætisráðherra, t.d. aðstoðarmaður, bílstjóri og annað slíkt. Það er örugglega hægt að reikna það upp í háar upphæðir ef menn fara í slíka vinnu.

Það er ekkert leyndarmál að ég er mikið að hugsa til heilbrigðisþjónustunnar. Við erum í samkeppni um heilbrigðisstarfsmenn, nokkurn veginn alla heilbrigðisstarfsmenn, og þeir geta auðveldlega fært sig á milli landa, sérstaklega geta þeir fært sig á milli Norðurlandanna. Ef við berum laun þeirra saman við laun kollega þeirra á Norðurlöndunum hafa laun hér lækkað mjög mikið ef við reiknum þau í erlendri mynt að undanförnu, þar sem gengi krónunnar hefur fallið. Þegar skoðaðir eru þeir einstaklingar sem eru með hærri laun en forsætisráðherra, þegar launin eru tekin bara strípuð, er þar nær eingöngu um heilbrigðisstarfsmenn að ræða.

Þess vegna vil ég, virðulegi forseti, spyrja hæstv. forsætisráðherra þriggja spurninga:

1. Er komin til framkvæmda sú stefna ríkisstjórnar að engin ríkislaun skuli vera hærri en laun forsætisráðherra? Ef ekki, hvenær er ráðgert að svo verði?

2. Eru hlunnindi forsætisráðherra t.d. bílstjóri, aðstoðarmaður og lífeyrisréttindi, talin til launa í þessu sambandi? Ef svo er, hve há eru launin þá?

3. Eru einhver fyrirtæki eða stofnanir undanþegin stefnu ríkisstjórnarinnar í þessu máli?