138. löggjafarþing — 31. fundur,  25. nóv. 2009.

stefna ríkisstjórnarinnar um ríkislaun.

159. mál
[14:12]
Horfa

Fyrirspyrjandi (Guðlaugur Þór Þórðarson) (S):

Virðulegi forseti. Ég þakka hæstv. forsætisráðherra fyrir svarið. Ég gat ekki skilið betur en hér væri aðeins verið að vísa í 935 þús. kr. en ekki önnur hlunnindi forsætisráðherra eins og bílstjóra og aðstoðarmann og ýmislegt annað sem þar er inni. En á móti kemur, ef ég skil hæstv. forsætisráðherra rétt og hæstv. forsætisráðherra leiðréttir mig ef ég fer rangt með það, að ekki er verið að tala um yfirvinnu og vaktaálag hjá þeim aðilum sem eiga að heyra undir þetta. Síðan eru viðskiptabankarnir undanþegnir og sparisjóðirnir og önnur dótturfélög þeim tengd. Hæstv. forsætisráðherra leiðréttir mig ef þetta er röng túlkun. Ég held nefnilega að flestir hafi staðið í þeirri meiningu þegar forsvarsmenn ríkisstjórnarinnar töluðu fjálglega um hvað ætti að gera í þessu, að verið væri að tala um 935 þús. þó að það sé kannski ekki rétt tala þar sem laun og launakjör hæstv. forsætisráðherra eru náttúrlega miklu meiri en bara það, þá væri verið að vísa til þess að þetta nái yfir alla og allt.

Ef ég skil orð hæstv. forsætisráðherra rétt er yfirvinna og vaktaálagið ekki inni í þessu. Síðan er ansi margt sem er undanþegið. Ég verð að viðurkenna að ég var svolítið spenntur fyrir að fylgjast með því hvernig t.d. muni ganga að taka danska ríkisbankann sem við eigum, ég held að hann heiti FIH banki, hvernig muni ganga að ná niður laununum þar. Ef þetta er misskilningur hjá mér, virðulegi forseti, vil ég að hæstv. forsætisráðherra leiðrétti mig en ég skildi orð hennar svona. En hún getur þá kannski upplýst í leiðinni hvernig gangi að taka niður launin hjá bankanum í Danmörku.