138. löggjafarþing — 31. fundur,  25. nóv. 2009.

stefna ríkisstjórnarinnar um ríkislaun.

159. mál
[14:14]
Horfa

forsætisráðherra (Jóhanna Sigurðardóttir) (Sf):

Virðulegi forseti. Það er rétt skilið hjá hv. þingmanni, það kom skýrt fram í ræðu minni áðan, að við ákvörðun sína skal kjararáð gæta þess að föst laun fyrir dagvinnu annarra en forseta Íslands verði ekki hærri en föst laun forsætisráðherra. Þannig að þegar kjararáð ákveður umrædd laun getur það horft ekki bara til dagvinnulauna, það ákveður þau auðvitað sérstaklega, síðan getur það horft til eininga fyrir yfirvinnu og vaktaálag og annað þess konar eins og kjararáð hefur gert áður. Hér er spurningin fyrst og fremst um dagvinnulaun eins og fram kom í máli mínu.

Þetta tekur líka til félaga sem skráð eru í eigu ríkissjóðs og stofnana þess og er ég með heilan lista yfir þau. Þar er t.d. um að ræða Flugstoðir, Íslandsbanka, Íslandspóst, Kaupþing, Keflavíkurflugvöll, Landskerfi bókasafna, Landsvirkjun, Matvís, NBI hf., Neyðarlínuna, Orkubú Vestfjarða, Rannsókna- og háskólanet Íslands, Rarik, Ríkisútvarpið, Tæknigarða, Vísindagarða, Háskóla Íslands, Vísindagarðinn ehf. og Þróunarfélag Keflavíkur. Þegar átt er við bankana er það þegar þeir eru í eigu ríkisins, það breytist þegar það er komið í eigu annarra aðila eins og til stendur.

Varðandi annað sem hér var um spurt er verið að taka á í öllum ríkisrekstrinum. Ég get bara nefnt mitt eigið ráðuneyti að við erum um 10% undir áætlaðri fjárhagsáætlun allt þetta ár miðað við það sem ákveðið var í upphafi. Þar eru einstakir liðir sem hefur verið sparað mjög mikið í, t.d. er liður sem heitir funda-, risnu og ferðakostnaður 50–80% undir áætlun og fleira mætti taka.

Varðandi skattfrelsi utanríkisþjónustunnar snýr það meira að utanríkisráðherra að skoða það. En ég get alveg tekið undir með hv. þingmanni að ég hef stundum undrað mig á öllum þeim hlunnindum sem þar fylgja, en það er utanríkisráðherrans að skoða það og að hafa skoðun á því hvort það sé rétt að breyta því. (Gripið fram í.)