138. löggjafarþing — 31. fundur,  25. nóv. 2009.

þýðingarvinna.

177. mál
[14:24]
Horfa

Birkir Jón Jónsson (F):

Frú forseti. Hér er um áhugavert mál að ræða og eins og hæstv. ráðherra nefndi áðan voru fimm störf sköpuð á Akureyri á árinu 2007. Það var þáverandi ráðherra Valgerður Sverrisdóttir sem beitti sér fyrir því að fjölga störfum í þeim efnum, en því miður, eins og fram kom í svari hæstv. ráðherra, hefur lítið gerst síðan þá þó að ég efist ekki um góðan hug hæstv. ráðherra í þeim efnum.

Annars finnst mér þingmenn Samfylkingarinnar vera ansi kjarkaðir í þessari umræðu að koma í ræðustólinn og tala um störf án staðsetningar sem hafa verið stærstu kosningamál Samfylkingarinnar á landsbyggðinni á undangengnum árum. 1.200 nýjum störfum var lofað vítt og breitt um landið, að fólk mundi fá jöfn tækifæri til þess að stunda atvinnu sína í heimabyggð, en það kom fram í fyrirspurn um daginn sem ég beindi til hæstv. forsætisráðherra að nær ekkert hefur gerst í þeim efnum af hálfu Samfylkingarinnar og þó hefur hún nú stýrt ríkisstjórninni í að verða eitt ár og verið í ríkisstjórn á þriðja ár.