138. löggjafarþing — 31. fundur,  25. nóv. 2009.

sjóvarnir við Vík.

149. mál
[14:56]
Horfa

Unnur Brá Konráðsdóttir (S):

Frú forseti. Ég þakka hv. þm. Björgvini G. Sigurðssyni fyrir að leggja þessa spurningu fram og ég vil jafnframt þakka hæstv. ráðherra fyrir ágætlega skýr svör. Hann hefur áhyggjur af þessu. Við sem sitjum á Alþingi skulum öll saman taka þetta mál og vinna að því að finna lausn á því vegna þess að við stöndum frammi fyrir því að landið okkar er í hættu. Við erum fullvalda þjóð og það er alveg sama hversu illa árar hjá okkur í efnahagsmálunum, þetta mál verðum við að leysa. Á það verðum við að leggja alla áherslu og við verðum, öll sem hér vinnum og störfum, að standa saman í þeirri baráttu. Það er grundvallaratriði og það er grundvallaratriði að við sýnum þann styrk og þá festu að við ætlum ekki að láta þessa byggð okkar eða mikilvæg landsvæði verða náttúruöflunum að bráð.

Síðan vil ég lýsa yfir þeirri skoðun minni að það sé grundvallarmunur á snjóflóðum og sjóflóðum, en ég vonast engu að síður til að við finnum peninga í þetta verkefni í ofanflóðasjóði. (Forseti hringir.) Það væri mjög ásættanleg lausn.