138. löggjafarþing — 31. fundur,  25. nóv. 2009.

jarðgöng á Íslandi sem uppfylla Evrópustaðla.

154. mál
[15:05]
Horfa

samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra (Kristján L. Möller) (Sf):

Virðulegi forseti. Hv. þingmaður spyr mig um nokkur atriði varðandi umferðaröryggismál eins og kom fram í ræðu hans hér. Ég fagna því að fá að ræða það.

Fyrsta spurning hans er: „Hefur ráðherra látið kanna hvaða jarðgöng hér á landi uppfylla tilskipun Evrópusambandsins um öryggi vegganga nr. 2004/54?“

Tilskipunin gildir um jarðgöng lengri en 500 metra á samevrópska vegakerfinu TURN. Þau jarðgöng á Íslandi sem falla undir tilskipunina eru Hvalfjarðargöng, Fáskrúðsfjarðargöng og Almannaskarðsgöng. Vegagerðin hefur látið skoða Fáskrúðsfjarðargöng og Almannaskarðsgöng og eru þar nokkur atriði sem ekki uppfylla tilskipunina að fullu. Vegagerðin hefur undir höndum úttekt á Hvalfjarðargöngum sem Spölur hefur látið gera og þar er einnig nokkrum atriðum ábótavant og álitamál um önnur.

Önnur spurning frá hv. þingmanni er svohljóðandi:

„Ef einhver jarðgöng uppfylla ekki Evrópustaðla, hvers vegna er það og til hvaða aðgerða verður gripið?“

Samkvæmt tilskipuninni er gefinn frestur til 2014 til að lagfæra eldri göng til samræmis við kröfur tilskipunarinnar. Einnig eru undanþágur í tilskipuninni sem geta gilt um umferðarlítil göng ef unnt er að sýna fram á með áhættumatsgreiningu að öryggi sé tryggt.