138. löggjafarþing — 31. fundur,  25. nóv. 2009.

Evrópustaðlar um malbik.

155. mál
[15:18]
Horfa

Eygló Harðardóttir (F):

Frú forseti. Ég tek undir þakkir til hv. þm. Guðlaugs Þórs Þórðarsonar varðandi þessa fyrirspurn og raunar þær fyrirspurnir sem munu koma í framhaldinu frá honum. Það er greinilegt að þingmaðurinn hefur kynnt sér vel hvernig Evrópusambandið hefur unnið að umferðarmál og samgöngumálum. Ég held að við getum öll verið sammála um að Evrópusambandið sé ekki alslæmt, það er ýmislegt sem það gerir mjög vel innan sinna landamæra, en það er ekki þar með sagt að við viljum ganga í Evrópusambandið því að við teljum að aðrir hagsmunir skipti þar meira máli. Ég fagna því að þetta sé rætt í þinginu því að við viljum að sjálfsögðu vera framúrskarandi, hvort heldur er í samanburði innan Evrópusambandsins eða við aðrar þjóðir hvað varðar samgöngumál og umferðaröryggismál.