138. löggjafarþing — 31. fundur,  25. nóv. 2009.

Evrópustaðlar um malbik.

155. mál
[15:19]
Horfa

Fyrirspyrjandi (Guðlaugur Þór Þórðarson) (S):

Virðulegi forseti. Ég þakka hlý orð í minn garð og enn og aftur gleðst ég yfir því hve mér tekst að gleðja hv. þingmenn og hæstv. ráðherra. Ég verð samt sem áður að segja það, og ég vona að ég spilli ekki gleðinni of mikið, að þó að ég sé sáttur við áherslur Evrópusambandsins þegar kemur að umferðaröryggismálum, í þessu tilfelli varðandi jarðgöng og malbik, finnst mér mjög margar tilskipanir Evrópusambandsins vera tómt malbik og mér þykir mjög vont ef við þurfum að taka það allt saman upp með því að vera aðilar að Evrópusambandinu. Ætli það dýrasta hjá okkur sé nú ekki Evróputilskipunin um innstæðutryggingarnar sem gerir það að verkum að við þurfum að fara í þennan Icesave-leiðangur, sem er eitt mesta og dýrasta ævintýri Íslandssögunnar og það kemur, eins og við vitum og hæstv. ráðherra veit, beint frá Evrópusambandinu.

Ég fagna því að hér séu menn að setja markið hátt og ég skil það svo að svarið sé já, að menn ætli sér að nota þessa staðla að fullu. Ég skil vel fyrirspurn sem kemur frá hv. þm. Ólöfu Nordal, því að það er mjög margt sem manni finnst sérstakt þegar maður hugsar til vegagerðar á Íslandi núna og hvernig hún hefur verið, það hefur auðvitað verið lagt mikið kapp á að reyna að ná eins miklu bundnu slitlagi og hægt er. Eftir því sem ég veit best erum við enn að nota olíumöl sem ég veit ekki hvort uppfyllir þessa staðla, mér hefur fundist endingin á bundnu slitlagi almennt vera frekar döpur. Ég hef heldur ekki áttað mig á því af hverju ekki hafa verið gerðar meiri tilraunir með steypu því að á þeim fáu stöðum þar sem steypa er virðist hún hafa gengið mjög vel og endingin góð.

Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir skýr og greinargóð svör og ég vona að þetta verði (Forseti hringir.) línan almennt, að menn setji markið hátt í umferðaröryggismálum.