138. löggjafarþing — 31. fundur,  25. nóv. 2009.

EuroRap-verkefnið.

156. mál
[15:27]
Horfa

samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra (Kristján L. Möller) (Sf):

Virðulegi forseti. Hv. þingmaður spyr hér þriggja spurninga. Sú fyrsta er: „Hver er staðan á EuroRap-verkefninu á Íslandi?“

Svarið við því er að samgönguráðuneytið, Vegagerðin og Umferðarstofa eru samstarfsaðilar FÍB um EuroRap-verkefnið á Íslandi. Vegagerðin hefur veitt fjárstyrki og faglega ráðgjöf og fengið kynningu á úttektum hvers árs en fylgist að öðru leyti ekki með stöðu verkefnisins. En þess ber auðvitað að geta að við höfum fengið margar góðar og frábærar tillögur.

Í öðru lagi er spurt: „Hefur verkefnið leitt til endurbóta og aðgerða til að auka umferðaröryggi?“

EuroRap hefur ásamt margvíslegum öðrum verkefnum án efa og örugglega aukið umferðaröryggi á Íslandi, enda var stofnað til þess með það að markmiði.

Í þriðja lagi: „Hvert verður framhaldið á verkefninu?“

Vonandi verður það bara áfram en ekki er hægt að segja nákvæmlega til um það á þessari stundu vegna þess að þetta er á forræði Félags íslenskra bifreiðaeigenda. En eins og kom fram í fyrsta svari mínu eru Vegagerðin og Umferðarstofa samstarfsaðilar FÍB um verkefnið og veita fjárstyrki. Í þeirri kreppu sem við erum núna og höfum m.a. rætt um í dag, þar sem við þurfum að ganga inn í samninga um flugsamgöngur og umferðaröryggismál sem eru vetrarþjónusta Vegagerðarinnar, er allt undir hvað það varðar að við þurfum að skera hluti niður, við þurfum að draga saman seglin, við þurfum að spara. Þess vegna er ekki hægt að veita fullnægjandi svar um það hvert framhaldið verður á þessu verkefni en ég legg auðvitað áherslu á að ég er mjög vel meðvitaður um það sem hefur komið út úr þessari skoðun og hvað það hefur nýst vel og hvað það mun nýtast vel.

Það er sannarlega þannig, eins og hv. þingmaður fjallaði um, að þetta er gæðaeftirlit á vegum, ekki bara í dreifbýli heldur á vegunum hjá okkur. Ég hef séð niðurstöður sem mér hafa verið kynntar mjög vel af þeim ágæta manni sem hefur stjórnað þessu, Ólafi Guðmundssyni, og þær hafa verið notaðar. Og þekkjandi vegi nokkuð vel vítt og breitt um landið, hefur auðvitað verið mjög athyglisvert að sjá niðurstöður úr EuroRap-verkefninu á ýmsum allra verstu vegum landsins sem við fáumst við, sem er á sunnanverðum Vestfjörðum og norðausturhorninu. Hann kemur sérstaklega upp í huga minn oft vegurinn til Vopnafjarðar, gamli vegurinn sem sem betur fer er byrjað að byggja upp núna og gera nútímalegan og verður árið 2011 loksins kominn í nútímalegt horf. Þetta var einbreiður vegur með útskotum og ef eitthvað hefði komið fyrir hefði ekki þurft að spyrja að leikslokum í því, vegna þess að þar var stórgrýti og björg sitt hvorum megin við veginn. Þessi vegur skoraði auðvitað ekki hátt í EuroRap-verkefninu. Þetta eru þættir sem notaðir eru hjá Vegagerðinni þegar verið er að fjalla um vegi og mjög mikilvægt tæki í öryggismálum og mun vonandi verða það áfram.