138. löggjafarþing — 31. fundur,  25. nóv. 2009.

sameining Fjármálaeftirlits og Seðlabanka.

213. mál
[15:46]
Horfa

efnahags- og viðskiptaráðherra (Gylfi Magnússon):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þm. Ólöfu Nordal þessar ágætu og tímabæru spurningar.

Því er til að svara að ráðuneytið hefur vitaskuld hugað mjög að þessum málum á undanförnum mánuðum. Við höfum hins vegar metið stöðuna þannig að það væri óvarlegt að fara út í svo róttækar skipulagsbreytingar sem sameining Fjármálaeftirlits og Seðlabanka Íslands væri alveg á næstunni, sérstaklega í ljósi þess, eins og hv. þingmaður benti reyndar á, að álagið á þessar stofnanir og þá sérstaklega Fjármálaeftirlitið er mjög mikið um þessar mundir og það rask sem mundi fylgja róttækum skipulagsbreytingum gæti orðið til þess að torvelda stofnuninni enn að sinna því starfi sem hún er að sinna. Það breytir því ekki að við verðum að fara yfir þessi mál fyrr eða síðar og komast að niðurstöðu. Ég geri ráð fyrir að verði niðurstaðan úr því mati sú að til lagabreytinga þurfi að koma, verði frumvarp þar að lútandi lagt fram næsta vetur en ég sé ekki fram á að það verði gert í vetur. Engu að síður tel ég rétt að víkja að nokkru leyti að helstu sjónarmiðum í þessu samhengi, þar á meðal þeirri umræðu sem hefur farið fram í nágrannalöndum okkar.

Í kjölfar þeirra hremminga sem riðu yfir alþjóðlega fjármálamarkaði og náðu hæstu hæðum síðla síðasta árs, settu mörg lönd og Evrópusambandið í gang vinnu til að huga að framtíðarfyrirkomulagi opinbers eftirlits með fjármálastarfsemi í viðkomandi löndum eða sambandinu. Innan Evrópusambandsins fékk tiltekin nefnd þetta verkefni og hún er almennt kölluð de la Rosiere-nefndin eftir nafni formanns nefndarinnar. Hún skilaði af sér tillögum í fyrravetur. Hér gefst ekki tími til að fara yfir niðurstöður eða tillögur nefndarinnar í heild sinni, en þær eru mjög áhugaverðar og fyrirsjáanlega munu þær hafa áhrif á íslenskt regluverk að verulegu leyti þegar fram líða stundir. En meðal helstu þátta sem minnast má á er að það er niðurstaða þessarar de la Rosiere-nefndar að margir samverkandi þættir leiddu til þessara hremminga á fjármálamarkaði og það sé ekki hægt að kenna einstökum fjármálaeftirlitsstofnunum, hvort sem það eru seðlabankar eða fjármálaeftirlit, eingöngu um þær hremmingar sem riðið hafa yfir, það er flóknara samhengi sem er þar að baki, m.a. lítið aðhald peningamálayfirvalda, lágir vextir á alþjóðafjármálamörkuðum og ófullnægjandi aðhald í ríkisfjármálum nánast um heim allan spiluðu hér einnig stórt hlutverk. Þá skorti verulega á samhæfingu og samráð á milli landa og alþjóðastofnana. Mestu skiptir þó að mati skýrsluhöfunda að stjórnun og stjórnunarhættir fjármálafyrirtækja brugðust og því til viðbótar má benda á að matsfyrirtæki juku talsvert á vandann með óraunhæfu mati á svokölluðum fjármálagerningum, svo sem hinum frægu undirmálslánavafningum og einnig brást þeim bogalistin við mat á einstökum fyrirtækjum.

Það má færa sterk rök að því að sameining Seðlabanka og eftirlits með einstökum fyrirtækjum hefði litlu breytt hér um, enda virðast þessar hremmingar hafa gengið yfir hin fjölmörgu hagkerfi heims, nánast án tillits til þess hvernig eftirliti var fyrirkomið, þ.e. hvort því var skipt á milli seðlabanka og fjármálaeftirlits eða var sameinað í einni stofnun.

Það virðist því ekki vera til nein augljóslega besta útgáfa sem allir eru sammála um að sé best á þessum eftirlitskerfum, þótt vissulega færi ýmsir rök fyrir einu kerfi frekar en öðru. Á vettvangi Evrópusambandsins er núna líkt og auðvitað á Íslandi og nánast um heim allan, unnið að því að sníða helstu ágalla af eftirliti á fjármálamarkaði og unnið er innan Evrópusambandsins eftir tillögum de la Rosiere-nefndarinnar, m.a. þeim að láta tvær meginstoðir sinna eftirliti, annars vegar hinu svokallaða evrópska kerfisáhætturáði og svo hins vegar evrópska fjármálaeftirlitskerfinu og að hafa gagnvirk samskipti og upplýsingagjöf á milli þessara tveggja meginstoða.

Rauði þráðurinn í þessari vinnu er að tryggja að þeir sem fylgjast með kerfislægum þáttum og þeir sem fylgjast með einstökum fyrirtækjum gangi í takt. Það hlýtur einnig að vera markmiðið hér og reyndar um heim allan, hvort sem það verður gert með því að sameina þessar tvær tegundir eftirlitsstofnana eða hafa þær sitt í hvoru lagi.