138. löggjafarþing — 31. fundur,  25. nóv. 2009.

sameining Fjármálaeftirlits og Seðlabanka.

213. mál
[15:54]
Horfa

efnahags- og viðskiptaráðherra (Gylfi Magnússon):

Virðulegi forseti. Ég þakka þessa ágætu umræðu þótt hún sé nú formsins vegna augljóslega það stutt að hún er engan veginn tæmandi. Ég tel að hvað svo sem hugmyndum um sameiningu þessara tveggja stofnana sem hér er vísað til líður, sé alveg augljóst að það þarf að taka á ýmsu sem bent hefur verið á í kjölfar þess áfalls sem gengið hefur yfir okkur, m.a. upplýsingaskipti og upplýsingagjöf bæði á milli þessara stofnana innbyrðis og frá fjármálafyrirtækjunum beint til markaðarins, ef við notum það hugtak, svo einnig miðlun Seðlabanka og Fjármálaeftirlits á upplýsingum um fjármálafyrirtækin til þeirra sem vilja kynna sér stöðu þeirra, hvort sem það eru lánveitendur eða aðrir. Innan míns ráðuneytis er unnið að ýmsum breytingum að þessu leyti og reyndar einnig innan stofnananna sjálfra, því að margt af þessu er þannig að það krefst ekki lagabreytinga eða fyrirmæla ráðherra, þetta er eitthvað sem stofnanirnar geta unnið úr sjálfar m.a. á grundvelli samstarfssamnings. Þessi mál eru því í ákveðnum farvegi og vinnslu sem tekur mið af reynslunni af því sem gekk yfir. Auðvitað er það svo að ekki eru öll kurl komin til grafar um það hvað fór úrskeiðis hér á undanförnum missirum, sérstaklega síðastliðið haust, væntanlega á ýmislegt fleira eftir að koma upp og menn eiga þá eftir að bregðast við því, hvort sem það verður með breytingum á regluverki eða annars konar breytingum.