138. löggjafarþing — 31. fundur,  25. nóv. 2009.

samkeppni á fyrirtækjamarkaði.

214. mál
[18:08]
Horfa

Fyrirspyrjandi (Ólöf Nordal) (S):

Hæstv. forseti. Ég vil þakka hæstv. efnahags- og viðskiptaráðherra fyrir þessi svör. Í svo stuttum fyrirspurnartíma gefst náttúrlega ekki tækifæri til djúprar umræðu um þetta.

Ég er alveg hjartanlega sammála hæstv. efnahags- og viðskiptaráðherra um að það sé auðvitað mjög jákvætt að bankarnir séu nú sumir hverjir farnir úr eða á leiðinni úr ríkiseigu. Einnig held ég að það sem kom fram í svari hæstv. efnahags- og viðskiptaráðherra um að menn haldi samkeppnissjónarmiðum á lofti sé afskaplega mikilvægt og auðvitað skiptir miklu máli við þær aðstæður sem nú eru að menn hverfi ekki frá slíkum grundvallaratriðum. Í þeim efnum hef ég tekið eftir því að forstjóri Samkeppniseftirlitsins, Páll Gunnar Pálsson, hefur nokkuð tekið þátt í þeirri umræðu að menn gleymi því nú ekki að aðstæðurnar séu óvenjulegar og ekki megi hvika. Ég vonast þá jafnframt til þess og á ekki von á öðru en að Samkeppniseftirlitið fylgist grannt með því sem nú er á ferðinni á markaði og jafnframt að þeir bankar og fjármálafyrirtæki sem véla með fyrirtæki í vandræðum grípi ekki inn í eða færi þau yfir til bankanna nema brýna nauðsyn beri til, vegna þess að slíkar aðgerðir raska strax þeim aðstæðum sem eru á markaði.

Um þessar mundir er dálítið áberandi, kannski vegna þess að jólin eru fram undan, að mikið er auglýst og nokkuð áberandi er að sum þeirra fyrirtækja sem nú eru komin í hendur eða nær ríkinu, ef svo má segja, eru töluvert umfangsmikil í því. Það vekur auðvitað spurningar og þá vonast maður jafnframt til þess að menn séu mjög vel á vaktinni.

En á einu stend ég fastara en fótunum, það kemur náttúrlega ekki til greina að stjórnmálamenn eða slíkir aðilar skipti sér af þessum hlutum. Þetta verður að gerast á forsendum markaðarins og við megum ekki hvika frá þeim grundvallarsjónarmiðum sem við höfum haldið að gagnist okkur til þess að komast út úr þessu aftur.