138. löggjafarþing — 31. fundur,  25. nóv. 2009.

menningarsamningar á landsbyggðinni.

135. mál
[18:20]
Horfa

Fyrirspyrjandi (Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir) (S):

Frú forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra kærlega fyrir þessi ítarlegu svör. Við stöndum þá frammi fyrir því að 1.942 verkefni fengu úthlutað, umsóknir voru helmingi fleiri og að áætluð eru um 190 ársverk í kringum samningana. Þetta er náttúrlega töluvert og sýnir um leið einmitt þá erfiðleika að reyna að draga fram hversu mörg ársverk þetta eru en reyna samt að ná einhverri niðurstöðu með raunhæfu móti, að það er alltaf erfitt og það verður alltaf togstreita í samfélaginu um hversu mörg ársverk menningin í rauninni veitir. Engu að síður er alveg ljóst að þetta er öflug atvinnustarfsemi sem verður síður en svo ofmetin.

Ég hef velt því fyrir mér hvaða áhrif menningarsamningarnir og menningarstarf almennt hafi inn í nýsköpunina. Nú er mikið ákall um nýsköpun víða og við stöndum frammi fyrir því núna að hugsanlega verði veittir skattafslættir til sprotafyrirtækja og nýsköpunarfyrirtækja, þannig að ég velti fyrir mér hvaða áhrif, og það væri gaman að heyra vangaveltur ráðherra um það, hvaða áhrif samningar sem þessir gætu haft inn í nýsköpun og nýsköpun og sprotaverkefni á landsbyggðinni, hvort tengsl séu þarna á milli, hvort hægt sé að nýta menningarsamningana enn betur til að stuðla að sprotastarfsemi á landsbyggðinni, því að það skiptir miklu máli að reyna að ýta undir hana sem víðast, ekki bara á suðvesturhorninu heldur ekki síður á landsbyggðinni.

Ég hef lengi haft þá skoðun að menningarmálin, listgreinarnar stuðli að ákveðinni nýsköpun, ekki síst innan háskólanna og háskólageirans ef við gætum séð listgreinarnar koma þvert inn á allar greinar, hvort sem það er íslenskan eða verkfræðin, lögfræðin eða viðskiptafræðin. Ég held að það sé hægt að ná mörgum verkefnum og hugsanlega líka nýrri hugsun með því að tengja menninguna og menningargreinarnar þvert yfir samfélagið. (Forseti hringir.) Þess vegna spyr ég: Hvaða möguleika hafa menningarsamningarnir til að víkka sig út og tengjast atvinnulífinu og sprotunum sem fyrir eru á landsbyggðinni?