138. löggjafarþing — 31. fundur,  25. nóv. 2009.

menningarsamningar á landsbyggðinni.

135. mál
[18:23]
Horfa

mennta- og menningarmálaráðherra (Katrín Jakobsdóttir) (Vg):

Virðulegi forseti. Ég held að þetta sé mjög góð athugasemd hjá hv. þingmanni. Mig langar að segja frá því að ég var um daginn á fundi á Hólmavík og sá fundur snerist nánast allur um nýsköpun og menningu og skapandi greinar og hvernig hægt er að nýta grunngreinarnar, landbúnaðinn til dæmis, hvernig hann hefur þróast í það að verða líka tæki til nýsköpunar með samstarfi milli bænda og nemenda í Listaháskólanum. Menn horfðu mikið á ullarpeysuna sem ég var í á þessum tíma og sögðu: Þarna stendurðu bara í íslenskri nýsköpun beint úr íslensku ullinni. Þetta er tengingin sem við sjáum mjög víða og ég held að menningarsamningarnir skipti þar máli.

Eins og ég sagði í fyrri ræðu minni hefur náðst góður árangur. Við sjáum það bæði á fjölda styrkja og fjölda starfa en líka almennri ánægju. Ég held að þetta einfalda en um leið skýra samningsform hafi orðið til þess að góður árangur hefur náðst, þ.e. í því að efla menningu og menningarstörf um landið og þegar á fyrstu starfsárum. Ég vonast til að við getum núna endurnýjað samningana þegar fjárlög hafa verið staðfest og það væri í raun og veru áhugavert að draga hugmyndir tengdar nýsköpun og sprotastarfi jafnvel inn í þá umræðu við endurnýjun samninga, ræða við sveitarfélögin um það hvernig þau gætu séð það þróast. Ég held að það sé ekki nokkur spurning að skapandi greinar eru nátengdar þessari hugsun sem við sjáum svo víða og þegar leiddir eru saman ólíkir geirar, hvort sem það íslenska, verkfræði eða landbúnaður, við skapandi greinarnar sjáum við þessa sprota verða til. Ég held að menningarsamningarnir geti orðið dýrmætt tæki til þess.