138. löggjafarþing — 31. fundur,  25. nóv. 2009.

námslán til skólagjalda á háskólastigi.

223. mál
[18:27]
Horfa

mennta- og menningarmálaráðherra (Katrín Jakobsdóttir) (Vg):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þm. Önnu Pálu Sverrisdóttur þessa fyrirspurn sem kannski snýr ekki bara að skólagjöldum og námslánum eða lánum til skólagjalda heldur líka heildarfjármögnunarumhverfi háskóla. Í núgildandi reglum um fjárveitingar til háskóla frá árinu 1999 er ekki gerður greinarmunur á því í raun og veru, eins og hv. þingmaður benti á, hvort háskóli innheimtir skólagjöld eða ekki. Á þeim tíma voru einkareknir skólar á háskólastigi fáir og fámennir og rökin fyrir því að heimila þessum skólum innheimtu skólagjalda til viðbótar við ríkisframlag voru einkum þau að gert var ráð fyrir að tekjurnar stæðu undir viðbótarþjónustu sem þeir létu nemendum sínum í té, t.d. vegna fámennari hópa. Auk þess væru ríkisháskólarnir með forskot þegar kæmi að uppbyggingu og aðstoð og þeir hefðu einnig rannsóknarframlög umfram einkaskóla.

Á þessum tíma og á fyrstu árunum eftir innleiðingu reiknilíkans háskóla voru útgjöld ríkisins vegna skólagjaldalána óveruleg. Útgjöld ríkisins vegna skólagjaldalána innan lands hafa hins vegar aukist mjög á undanförnum árum og þá sérstaklega á undanförnum tveimur árum, ekki síst vegna skólagjalda til sérnáms á framhaldsskólastigi, sem er kannski stærsti pósturinn í því. Skólagjaldalán almennt nema u.þ.b. 2,6 milljörðum, kostnaður ríkissjóðs er u.þ.b. 1,3 milljarðar og u.þ.b. helmingur þeirra er erlendis og helmingur innan lands. Það segir aðeins um umfangið og það hefur mjög vaxið.

Það er auðvitað ekki ólíklegt að þrengingar í efnahagsmálum kalli á forgangsröðun hvað varðar bein framlög til háskóla og útgjöld ríkisins vegna námslána en hins vegar er málið ekki alveg svo einfalt að eingöngu sé hægt að horfa á þennan lið. Ég nefndi áðan húsnæðisframlag sem er mjög mismunandi milli ólíkra háskóla og fer ekki endilega eftir rekstrarformi heldur er hreinlega mismunandi milli einstakra háskóla. Háskóli Íslands til að mynda hefur haft tekjur frá Happdrætti Háskóla Íslands og ríkið kemur hins vegar að uppbyggingu húsnæðis annarra ríkisháskóla, t.d. hvað varðar Háskólann á Akureyri, og einkaskólarnir hafa bent á það að innheimta skólagjalda sé nauðsynleg t.d. til að mæta húsnæðiskostnaði sem ekki sé að fullu mætt í reiknilíkani háskóla.

Nú stendur líka yfir vinna við að endurskoða þetta reiknilíkan því að markmiðið er í raun og veru að þetta fjármögnunarumhverfi háskólanna verði sem gagnsæjast. Það eru til að mynda, ef við horfum á þá sjö háskóla sem nú eru starfandi, tveir landbúnaðarháskólar sem þar til ekki fyrir mörgum árum voru færðir frá landbúnaðarráðuneyti yfir til menntamálaráðuneytis og þar áður voru ekki mörg ár liðin frá því að þeir fóru upp á háskólastig. Við erum að vinna við það núna að færa þessa skóla inn í reiknilíkanið en líka stendur yfir vinna við endurskoðun reiknilíkansins sjálfs. Það er ekki alveg einhlítt hægt að skoða bara framlag á hvern nemanda því að þau eru auðvitað mjög mismunandi milli svokallaðra reikniflokka, þ.e. hvort nemandinn telst vera dýr nemandi, t.d. í tannlæknanámi, svo dæmi sé tekið úr efra lagi reiknilíkansins, eða í því sem telst vera ódýrasta námið, í hugvísindanámi, svo dæmi sé tekið, þar sem þeir nemendur teljast ódýrastir í reiknilíkaninu.

Það sem ég hef lagt áherslu á í þessum efnum er að við endurskoðum þessar reglur allar saman, að við endurskoðum reiknilíkönin, að við endurskoðum rannsóknarframlögin því að það er annað mál sem tengist þessum, þ.e. rannsóknarframlög til háskólanna, hversu stór hluti á að vera í samkeppnissjóðum sem er keppt um, hversu stór hluti á að skila sér til háskólanna í gegnum sérstaka samninga og hvernig á að veita þá fjármuni til háskólanna. Á t.d. að árangurstengja þá fjármuni í meira mæli en nú er gert, á að auka sveigjanleika milli framlags til kennslu og rannsókna, svo dæmi sé tekið? Þetta er eitt af því sem við viljum skoða í þessu samhengi.

Hvað varðar skólagjaldalánin sérstaklega, sem hv. þingmaður gerir hér að umtalsefni, kemur það fram í úthlutunarreglum Lánasjóðs íslenskra námsmanna fyrir þetta ár að stjórn sjóðsins hafi í huga að skoða þessi lán sérstaklega í hagræðingarskyni í úthlutunarreglum næsta árs. Þar hefur ekki verið tekin ákvörðun en nefndar hugmyndir, annars vegar um einhvers konar eigin áhættu námsmanna í skólagjöldum og hins vegar að setja þak á skólagjaldalánin. Það er þak núna en þá væri hugmyndin að lækka það þak til að spara sjóðnum útgjöld. Ég hef hins vegar lagt áherslu á að þessi ákvörðun fari saman með öðrum ákvörðunum um fjármögnun háskóla, þannig að við horfum á þetta kerfi heildstætt, kennsluframlög, rannsóknarframlög, húsnæðisframlög og svo skólagjöldin.

Ég get hins vegar sagt það að lokum að ég vildi auðvitað helst sjá engin skólagjöld í háskólum og hef náttúrlega lagt mikla áherslu á það í opinberum skólum. Það er í anda þeirrar hugmyndafræði sem ég stend fyrir um jafnrétti til náms. Hins vegar finnst mér mjög mikilvægt að við skoðum þetta í samhengi þegar við horfum á heildarmyndina.