138. löggjafarþing — 31. fundur,  25. nóv. 2009.

námslán til skólagjalda á háskólastigi.

223. mál
[18:34]
Horfa

Fyrirspyrjandi (Anna Pála Sverrisdóttir) (Sf):

Frú forseti. Kærar þakkir fyrir það, hæstv. ráðherra og hv. þingmaður. Ég hafði svo sem séð fyrir mér að mögulega gætum við fengið að taka þessa umræðu saman ef hv. þingmaður yrði í salnum og bara gaman að því.

Svo við förum aðeins fyrir nokkur atriði sem komu fram er ég ánægð með að heildarfjármögnunin sé tekin til endurskoðunar. Ég held að við getum allar verið sammála um að reiknilíkanið verði endurskoðað o.s.frv. Engu að síður vil ég aftur benda á að það er ákveðin mismunun fólgin í því hvernig greitt er með hverjum nemanda til kennslu, þ.e. af því að það verður að gera greinarmun á kennslu annars vegar og rannsóknargreiðslum hins vegar. Nú má ekki bara fletja þetta allt út og ímynda sér að það sama sé greitt með hverjum nemanda af því að rannsóknarframlög séu svo og svo há. Þetta er ekki einfalt, ég viðurkenni það.

Ef við förum inn í t.d. húsnæðisframlögin verð ég að segja að ég held ekki að neinum opinberum háskóla hefði leyfst að fara út í það ævintýri sem Háskólinn í Reykjavík hefur t.d. gert og á núna í verulegum vandræðum út af, án þess að ég sé á nokkurn hátt með þessu, eins og maður segir á unglingatungumáli, að hrauna yfir Háskólann í Reykjavík, alls ekki. Ég sem fyrrverandi nemandi úr Háskóla Íslands tel að samkeppni sem þaðan og úr öðrum háskólum kom hafi gert mínu námi gríðarlega mikið gagn, af því að sú samkeppni hefur dregið fram betri hluti í öllum þessum háskólum, einkareknum og opinberum.

Að lokum verð ég að taka undir með vinstri manninum, hæstv. menntamálaráðherra, sem hv. þm. Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir var aðeins að pota hér í, og láta vita að ég er ánægð með svör hennar og sérstaklega það atriði að ekki eigi að taka skólagjöld í háskólanámi yfir höfuð.