138. löggjafarþing — 31. fundur,  25. nóv. 2009.

héraðsdómarar og rekstur dómstóla.

185. mál
[18:41]
Horfa

dómsmála- og mannréttindaráðherra (Ragna Árnadóttir):

Virðulegi forseti. Ég þakka fyrirspurnina sem lýtur að frumvarpi sem nú er til meðferðar í allsherjarnefnd.

Frumvarpið er byggt á tillögum sem komu frá dómstólaráði og hefur samráð um þær tillögur nær alfarið fram á vettvangi dómstólaráðs. Rétt er að minna á að tveir fulltrúar af fimm í því ráði eru kjörnir af dómurum en aðrir tveir af dómstjórum.

Í bréfi dómstólaráðs til ráðuneytisins frá 11. febrúar í ár kemur fram að dómstólaráð hafi kallað dómstjóra til fundar 26. janúar 2009. Í fundargerð þess fundar segir m.a., með leyfi forseta:

„Á fundinum var farið yfir málatillögur ársins 2008, þ.e. innkomin mál hjá dómstólunum, málsmeðferðartíma þeirra og það vinnuálag sem er á einstökum dómstólum. Þá var rætt um rekstraráætlun og fjárhagsvanda dómstóla og loks var rætt um hugmyndir dómstólaráðs um sameiningu héraðsdómstóla.“

Nánar segir um þetta síðasttalda atriði í fundargerðinni, með leyfi forseta:

„Þá var rædd hugmynd um að sameina héraðsdómstólana í einn dómstól með sjö til átta skrifstofur, þ.e. á þeim stöðum sem dómstólarnir eru á nú, nema til komi sameining héraðsdóms Norðurlands eystra og vestra. Með því móti mætti ná fram verulegu hagræði í rekstri. Í því sambandi má nefna að stöðugildi dómstjóra eru í heildina metin sem 2,15 stöðugildi til að sinna stjórnun. Ef aðeins yrði einn dómstóll og einn dómstjóri í fullu starfi sem stjórnandi, mætti nýta eitt stöðugildi dómstjóra í dómarastöðu. Þá er ljóst að hagræða mætti með því að vinna bókhald á einum stað, en nú er það gert á níu stöðum, svo og símsvörun, svo dæmi séu nefnd. Þessa þætti mætti eftir atvikum flytja út á landsbyggðina ef heppilegt þykir.“

Fram kemur í þessari fundargerð að meiri hluti dómstjóra hafi stutt þessar hugmyndir. Það er því ljóst að dómstólaráð hafði samráð við dómstjóra á öllum héraðsdómstólum um þá tillögu sem gerð var til ráðuneytisins um sameiningu dómstólanna. Það er síðan undir hælinn lagt hvort allir hafi verið sammála þeirri niðurstöðu sem fram kemur í frumvarpi því sem er til meðferðar í allsherjarnefnd.

Ráðuneytið hefur ekki leitað beint til dómara umfram þær tillögur sem komu frá dómstólaráði að frumkvæði dómstólaráðs, þ.e. ráðuneytið leitaði ekki til dómstólaráðs um að fá tillögur til sparnaðar heldur var það að frumkvæði dómstólaráðs sem sú nálgun var rædd sem lögð er fram í frumvarpi því sem er til meðferðar í allsherjarnefnd.

Rétt er að hafa í huga að dómsmálaráðuneytið þarf að gæta mjög vel að hlutleysi dómstólanna í samskiptum sínum við þá. Þá hefur löggjafinn komið málum fyrir með þeim hætti að dómstólaráð, tilnefnt af dómurum að langmestu leyti, fer með fjárreiður héraðsdómstólanna samkvæmt lögum um dómstóla og hefur í raun með höndum þá yfirstjórn með héraðsdómstólunum sem ráðuneytin hafa með öðrum stofnunum ríkisins. Ráðuneytið er þó vitaskuld opið fyrir ábendingum frá dómurum eins og öðrum. Hef ég óskað eftir góðu samstarfi við Dómarafélag Íslands í þeim efnum sem hv. fyrirspyrjandi nefnir í fyrirspurn sinni.