138. löggjafarþing — 31. fundur,  25. nóv. 2009.

héraðsdómarar og rekstur dómstóla.

185. mál
[18:45]
Horfa

Birgir Ármannsson (S):

Hæstv. forseti. Ég vil fyrst taka það fram að ég tel að það sé afar jákvætt ef hæstv. dómsmálaráðherra er að ná árangri í sambandi við það að tryggja aukið fjármagn til dómstólanna eins og mér hefur skilist af fréttum. Auðvitað liggur ekki fyrir nein ákvörðun af hálfu fjárlaganefndar eða Alþingis um það efni, en hins vegar held ég að það skipti miklu máli að fylgja eftir hugmyndum sem fram hafa komið um að efla dómstólana með auknu fjármagni á næsta ári miðað við það sem fjárlagafrumvarpið gerði ráð fyrir. Ég held það sé afar mikilvægt.

Varðandi það mál sem hér er spurt um nefndi hæstv. dómsmálaráðherra það að dómsmálaráðuneytið væri opið fyrir athugasemdum frá dómurum. Þá vildi ég spyrja hvort dómsmálaráðuneytið hefði heyrt frá dómurum að öðru leyti en því sem getið hefur verið um varðandi aðkomu dómstólaráðs, vegna þess að ljóst er að málið er mjög umdeilt (Forseti hringir.) meðal dómara og ekki bara á landsbyggðinni heldur líka á höfuðborgarsvæðinu.