138. löggjafarþing — 31. fundur,  25. nóv. 2009.

héraðsdómarar og rekstur dómstóla.

185. mál
[18:49]
Horfa

dómsmála- og mannréttindaráðherra (Ragna Árnadóttir):

Virðulegi forseti. Það er auðvitað brýnt að það fáist staðfest af Alþingi að unnt sé að auka fjárframlög til dómstólanna svo fjölga megi dómurum. En varðandi það mál sem hér er rætt um vil ég undirstrika það sem ég nefndi, að upphafleg tillaga kom frá dómstólaráði og síðan er frumvarpið unnið af réttarfarsnefnd. Það má vel vera að menn greini á um útfærslur í frumvarpinu og það hafi ekki verið borið undir dómstólaráð, ég ætla ekki að skjóta mér undan þeirri ábyrgð hafi það ekki verið gert, en það sem ég er að leggja áherslu á hér er að upphaflegar tillögur um það að sameina átta stofnanir héraðsdómstóla í eina stofnun, sú hugmynd kemur frá dómstólaráði.

Hvað varðar þær ágætu ábendingar sem hv. fyrirspyrjandi kemur með um leiðir til sparnaðar, þ.e. að skoða húsaleigu og að starfsmenn dómstóla taki á sig launalækkun, þá er þetta atriði sem dómstólaráð verður að skoða.

Hvað varðar spurninguna um hvort dómstjóri þurfi að vera dómari er því til að svara að í dag fara dómstjórar með ýmis verkefni sem varða fjármál og starfsmannahald dómstóla, auk þess að vera dómarar og faglegir stjórnendur. Í frumvarpinu er gert ráð fyrir að þetta verði á hendi eins dómstjóra, þannig að dómarar úti um allt land geti þá einbeitt sér að dómstörfum og þurfi ekki að sinna þessum verkefnum sem ég nefndi.

Hvað varðar sérfróða meðdómsmenn og fækkun í dómstólaráði, þetta allt varðar innri málefni dómstólanna að undanskildri fækkun í dómstólaráði, því að það verður væntanlega ekki gert án lagabreytinga.