138. löggjafarþing — 31. fundur,  25. nóv. 2009.

verkefni héraðsdómstóla.

187. mál
[18:52]
Horfa

Fyrirspyrjandi (Gunnar Bragi Sveinsson) (F):

Virðulegi forseti. Það hefur stundum verið í umræðunni einhverra hluta vegna að sé frekar rólegt hjá dómurum á landsbyggðinni sérstaklega. Ég held hins vegar að það sé ekki endilega rétt. Ég hef í fyrirspurn þar sem ég óskaði eftir skriflegu svari frá hæstv. ráðherra komið með ábendingar um það eða í raun óskað eftir upplýsingum eða staðfestingu á upplýsingum sem ég setti fram í fyrirspurninni, að ef við gefum okkur það að hægt sé að auka verkefni dómara og dómstóla á landsbyggðinni, hvort hægt sé að færa einhver verkefni til þeirra. Og eins ef þeir eru störfum hlaðnir að færa þá verkefni til þeirra dómara sem hafa minna umleikis á þeim tíma, t.d. á höfuðborgarsvæðinu. Þar má nefna verkefni tengd fjarvinnslu sem hugsanlega mætti vinna á ólíkum stöðum. Það má velta fyrir sér endurritun eftir hljóðupptökum og slíku, hvort sé hægt að færa það á milli dómstóla eftir því í hvernig álagið er eða hreinlega fela ákveðnum dómstólum slíka vinnu í ljósi þess að ... (Utanrrh.: Á Sauðárkrók?) Til dæmis, já, hæstv. utanríkisráðherra — í ljósi þess að þeir eigi að hafa rýmri tíma en aðrir. Síðan má velta fyrir sér skjalavistun og umsýslu með skjöl og þess háttar. Í fjórða lagi hef ég aðeins velt því fyrir mér hvort það gangi, þ.e. ef það er ekki bundið sérstaklega í lögum eða einhverjum samningum eða slíku sem verið er að fjalla um, að héraðsdómarar geti fjallað um ákveðin dómsmál, þ.e. að dómsmál séu hreinlega flutt á milli dómstóla eftir því hvernig ástandið er hverju sinni. Þetta gæti þá gengið í rauninni í allar áttir, sérstaklega með mál þar sem einstaklingar þurfa að fara um langan veg og ef þetta eru mál sem jafnvel kalla ekki á að aðrir en lögmenn séu viðstaddir eða slíkt. Þá má hugsa sér að þetta geti farið fram víða um land og þannig megi létta á þrýstingi sem hugsanlega er á starfseminni.

Ég geri mér grein fyrir því að fram undan eru væntanlega og því miður mikil og aukin verkefni hjá dómurum. Því tel ég mjög mikilvægt að fara yfir það hvort flutningur verkefna geti verið með þessu móti. Ef niðurstaðan verður sú að minna sé að gera hjá ákveðnum dómurum og aðrir séu að drukkna í verkefnum, ber vitanlega að skoða hvort hægt sé að flytja störf á milli í stað þess að leggja þau niður.