138. löggjafarþing — 31. fundur,  25. nóv. 2009.

fækkun héraðsdómstóla.

188. mál
[19:08]
Horfa

dómsmála- og mannréttindaráðherra (Ragna Árnadóttir):

Virðulegi forseti. Ég þakka fyrirspurnina. Hún lýtur að þáttum sem voru ræddir við 1. umr. um frumvarp til laga um breyting á lögum um dómstóla og það kemur þá væntanlega til kasta allsherjarnefndar við vandaða og ítarlega umfjöllun nefndarinnar um það frumvarp.

Ég vil nota tækifærið til að taka fram að ég tel vel koma til greina að gera þær breytingar á frumvarpinu að það verði ekki lagt í vald dómstólaráðs að skipuleggja staðsetningu dómstóla og þingstað eins og frumvarpið gerir ráð fyrir heldur verði það gert með lögum eða reglugerð þannig að óvissu verði eytt í þeim efnum.

Þá vil ég líka undirstrika að sameining dómstólanna í einn dómstól þarf ekki að fela í sér að þingstöðum dómstólsins fækki frá því sem nú er. Við það er miðað í frumvarpinu að starfsemi héraðsdóms sé eftir þörfum á landinu öllu á sérstökum starfsstöðvum, eins og segir í athugasemdum með frumvarpinu, en aðsetur héraðsdómstólanna nú eru í Reykjavík, Borgarnesi, Ísafirði, Sauðárkróki, Akureyri, Egilsstöðum, Selfossi og í Hafnarfirði.

Hitt er annað mál að mjög mismunandi álag er á dómurum eftir því við hvaða dómstól þeir starfa og nauðsynlegt að jafna það álag. Er þá ekki verið að gera lítið úr starfsemi dómstólanna víða um land heldur er þetta ákveðin staðreynd.

Það hefur komið fram hjá dómstólaráði að málafjöldi héraðsdómstólsins á Akureyri og Sauðárkróki nær ekki þeim heildarmálafjölda sem héraðsdómur Suðurlands býr nú við. Þá hefur komið fram hjá dómstólaráði að með því að sameina héraðsdómstólana í einn dómstól með sjö til átta skrifstofur, þ.e. að á þeim stöðum sem dómstólarnir eru á nú, mætti nýta eitt stöðugildi sem sparaðist við fækkun dómstjóra í einn í eitt stöðugildi dómara. Hér ber að hafa í huga að þær tillögur sem komu frá dómstólaráði miðuðu að því að hagræða eftir því sem unnt væri í starfsemi héraðsdómstólanna. Dómstólaráð sá ekki mikla möguleika til þess að skera niður í starfsemi dómstólanna þar sem mjög mikill hluti af rekstrarkostnaði er bundinn í launum og kostnaði við húsnæði, þ.e. rekstrarkostnaði, og það væri í rauninni mjög erfitt að hagræða nema þá að gera úr þessu eina stofnun. Það er reyndar búið að koma svo oft inn á það en ég vildi halda því til haga.

Verði sú ákvörðun tekin að starfsstöðvum héraðsdóms verði fækkað sé ég þó ekki fyrir mér að við stofnum til einhverra nýrra ríkisútgjalda til að bæta mönnum kostnað við málarekstur í meira mæli en nú er gert. Ég tel að Alþingi hafi þetta í hendi sér, að Alþingi geti gert þær breytingar á frumvarpinu að kveða á um það hreinlega að starfsstöðvum héraðsdómstóls verði ekki fækkað frá því sem nú er. Það er eitthvað sem allsherjarnefnd verður að taka afstöðu til.

Rétt er að undirstrika að það krefst ákveðins fjármagns að gera dómstólum kleift að halda úti þinghám utan starfsstöðva burt séð frá því hver tekur ákvörðun um hvað þar er gert.