138. löggjafarþing — 31. fundur,  25. nóv. 2009.

fækkun héraðsdómstóla.

188. mál
[19:13]
Horfa

Birgir Ármannsson (S):

Hæstv. forseti. Ég tek undir þau sjónarmið sem komu fram hjá síðasta hv. þingmanni um að við breytingar á dómstólaskipaninni verði að hafa í huga bæði hagræðingarrök en líka fagleg rök og ég þykist vita að það sjónarmið verði haft uppi bæði af hálfu dómsmálaráðuneytis og allsherjarnefndar í sambandi við afgreiðslu þess frumvarps sem nú liggur fyrir þinginu.

Ég vildi taka fram, af því að ég gat ekki komið inn á það áðan, að í umfjöllun um fjárlagafrumvarp ríkisstjórnarinnar voru bæði meiri og minni hluti allsherjarnefndar sammála um það þó að ágreiningur væri um ýmsa þætti að fara ætti mjög gætilega gagnvart dómstólunum í sambandi við hagræðingu og niðurskurð og gæta þess að þeir væru í stakk búnir að sinna sínu hlutverki.

Varðandi breytingarnar sem nú eru fyrirhugaðar verð ég að ítreka spurningu sem ég bar fram áðan til hæstv. dómsmálaráðherra um það hvort ráðuneytið eða ráðherra hefði orðið vör við þann ágreining (Forseti hringir.) sem mér skilst að sé meðal dómara um þær hugmyndir sem frumvarpið hefur fram að færa.